140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

atvinnutengd starfsendurhæfing og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

735. mál
[14:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. velferðarráðherra fyrir ræðuna og þetta frumvarp. Ég tel að okkur þingmönnum beri að fagna frumvarpinu. Það er orðið langt um liðið síðan ég benti á að kerfið hjá okkur liti miklu meira á vangetu manna til að starfa en getu, ég held að það hafi verið um þetta leyti árs 2006. Þetta er mjög mikilvægt vegna þess að þegar litið er á vangetuna eru menn mjög fljótt orðnir öryrkjar.

Ég sat í Bollanefnd og reyndi að koma þessum málum áfram. Hér er sem sagt komið frumvarp um starfsendurhæfingarsjóð og starfsendurhæfingu, lagarammi um starfsemina. Ég tel það mjög mikilvægt vegna þess að fólk sem verður öryrkjar, 75% öryrkjar, er eiginlega dæmt til þess. Það fær mjög litla endurhæfingu í dag þótt hún sé vaxandi af því að þessi sjóður er byrjaður að starfa. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort 75% mörkin, þ.e. að menn séu annaðhvort 75% öryrkjar eða ekki neitt, komi ekki í veg fyrir endurhæfingu. Ef maður sem er metinn 75% öryrki og endurhæfist dettur niður í 74% fær hann mjög lítinn örorkustyrk. Ef hann fer niður fyrir 65% fær hann ekki neitt. Þarf ekki að laga þetta?

Svo er spurningin hvort menn þurfi ekki að líta á hlutverk sjúkrasjóðanna. Lagaumgjörðin um sjúkrasjóðina er nær eingöngu fólgin í því að öllum launagreiðendum er skylt að borga 1% af launum í sjúkrasjóð og svo er ekki orð meir um sjúkrasjóði. Þarf ekki að endurskoða það?