140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

heiðurslaun listamanna.

719. mál
[15:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um heiðurslaun listamanna sem meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar flytur. Aðdragandinn að þessu máli er sá að í haust og vetur kom aftur upp spurningin um heiðurslaun listamanna fyrir 3. umr. fjárlaga, hvort bæta skyldi á listann og þá hverjum. Eðlilega og eins og gengur sýnist sitt hverjum um það en við afgreiddum málið þannig að við bættum einum manni á listann, Sigurði A. Magnússyni rithöfundi, og ákváðum um leið að setja af stað vinnu í nefndinni meðal allra flokkanna um að skoða leiðir til að setja ramma utan um heiðurslaun listamanna, heildarlög, þannig að forsendur væru skýrðar og um leið yrði þessu fundinn framtíðarfarvegur. Margar ólíkar skoðanir eru á því hvort almennt eigi að vera til heiðurslaun listamanna en það er skoðun okkar, meiri hluta nefndarinnar, að svo eigi afdráttarlaust að vera.

Tilgangurinn með þessu frumvarpi er sá að skapa ramma utan um fyrirkomulagið, búa til ákveðnar kríteríur um hvernig fólk skuli veljast þarna inn, hve margir geti verið þarna í heildina og hvernig laununum skuli háttað. Það tókst ágætlega til og við vorum þrjú í undirnefnd innan nefndarinnar sem unnum að þessu, sá sem hér stendur og hv. þingmenn Þuríður Backman og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Við funduðum með ýmsum aðilum og fórum vel yfir þetta mál, drög að tillögum og framkomnar tillögur eins og frá hv. þm. Merði Árnasyni um fyrirkomulag á heiðurslaunum listamanna og nýttum okkur að sjálfsögðu vinnu og skoðanir margra annarra til að komast að niðurstöðu.

Niðurstaðan er sú sem hér liggur fyrir og segir í greinargerð að með frumvarpi þessu frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar sé lagt til að lögfest verði ákveðin umgjörð um veitingu heiðurslauna listamanna. Hér á landi er öflugt menningarlíf og flóran fjölbreytt, segjum við í greinargerð. Margir afburðalistamenn eru starfandi hér á landi sem og víðs vegar erlendis og á undanförnum árum hefur komið æ betur í ljós hversu miklu listin skilar af sér í samfélaginu.

Alþingi hefur með sérstakri fjárveitingu í fjárlögum heiðrað þá listamenn sem þykja hafa skarað fram úr á sínu sviði. Heiðurslaun listamanna voru veitt samkvæmt lögum um listamannalaun, nr. 29/1967, til 1991 þegar þau lög voru leyst af hólmi með nýjum lögum um listamannalaun. Frá 1991 hefur Alþingi síðan samþykkt að veita heiðurslaun til eins árs í senn við umfjöllun um frumvarp til fjárlaga ár hvert. Þótt Alþingi hafi óskorað vald til að ákveða heiðurslaun listamanna hafa komið fram sjónarmið um að setja beri reglur um undirbúning tillögugerðar af hálfu þeirrar þingnefndar sem gerir slíka tillögu. Frumvarp þetta byggist á þeirri venju sem hefur skapast um undirbúning og málsmeðferð heiðurslaunatillögu menntamálanefndar Alþingis, nú allsherjar- og menntamálanefndar. Á það við um forræði nefndarinnar á tillögugerðinni og að heiðurslaunaþegar njóti launa sinna til æviloka.

Lagt er til í frumvarpinu að allt að 25 listamenn geti verið meðal þeirra sem njóta heiðurslauna á hverjum tíma. Eins og verið hefur er kveðið á um fjárveitingar til þess í fjárlögum.

Þeir listamenn sem koma til greina samkvæmt tillögu okkar eru þeir sem hafa skarað fram úr í listsköpun sinni. Einnig er gert ráð fyrir að listamönnum geti talist til tekna mikilsvert verk í þágu lista hér og erlendis. Hér getur til dæmis verið um að ræða listamenn sem hafa staðið framarlega í listfræðum, verið frumherjar í listgrein, frumkvöðlar í stefnum og straumum eða mikilvirkir í alþjóðasamskiptum á listasviði.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur greitt út fjárhæðina til listamanna samkvæmt því sem kveðið er á um í fjárlögum hverju sinni. Er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að sá sem nýtur heiðurslauna geti óskað eftir því að afsala sér greiðslum tímabundið en samt haldið sæti á lista yfir heiðurslistamenn. Sú tillaga kemur til af því að það getur vel komið upp í mörgum tilfellum að fullorðnum listamanni sem hefur hlotnast það að vera á lista Alþingis yfir heiðurslaun skapist tækifæri til tímabundins verkefnis sem felur í sér laun og hann vill, eðlilega og réttilega, halda sæti sínu á listanum, enda er fyrst og fremst um að ræða heiður, en ekki þurfa að afsala sér því varanlega. Hann getur sem sagt haldið sætinu, afsalað sér laununum en tekið við þeim heiðri sem Alþingi ákveður að veita honum. Það finnst mér mjög mikilvæg breyting og held að hún geti skipt máli.

Eins vorum við öll sammála um það eftir heilmiklar umræður að það væri mikilvægt að Alþingi héldi forræðinu yfir þessu hjá sér, þetta væru heiðurslaun Alþingis en ekki heiðurslaun samtaka listamanna o.s.frv. þó að við leitum ráðgjafar og umsagna eins og við leggjum hérna til í 3. gr.:

„Forseti Alþingis skal skipa nefnd þriggja manna, einum tilnefndum af mennta- og menningarmálaráðherra, einum af Bandalagi íslenskra listamanna og einum af samstarfsnefnd háskólastigsins. Allsherjar- og menntamálanefnd skal leita umsagnar nefndarinnar um þá listamenn sem til greina koma að njóti heiðurslauna Alþingis.“

Varð það niðurstaða okkar eftir þessa skoðun að þó að við búum til viðmið og skipum ákveðið bakland sem geri tillögur til allsherjar- og menntamálanefndar er Alþingi áfram með forræðið á því hverjir er lagt til að bætist við á listann á hverjum tíma. Annars væri um að ræða eitthvert annað fyrirkomulag og annars konar heiðurslaun. Á meðan þetta eru heiðurslaun Alþingis er það mín skoðun og meiri hlutans í nefndinni að Alþingi hafi óskorað forræði á því. Þó er sjálfsagt að búa til viðmið og leita tilnefninga frá samfélaginu sjálfu en þess má reyndar geta að Íslendingar hafa í gegnum tíðina verið mjög duglegir að koma ábendingum og tilnefningum beint til nefndarmanna í menntamálanefnd, nú allsherjar- og menntamálanefnd, vel rökstuddum, í mörgum tilfellum með undirskriftalistum þar sem hvatt er til þess að listamanni sem hefur skarað fram úr að mati meðmælenda verði bætt á lista heiðurslauna. Þau viðmið, meðmæli og tilmæli sem eru sjálfsprottin í samfélaginu hafa í gegnum tíðina haft mikil áhrif. Stundum er mælt með einhverjum tilteknum listamanni nokkur ár í röð og að því kemur að svigrúm skapast til að bæta honum við.

Þá má geta þess að í 4. gr. segjum við að heiðurslaun listamanna séu veitt listamanni að fullu til 70 ára aldurs og skuli vera þau sömu og starfslaun listamanna eru á hverjum tíma. Eftir sjötugt verða þau 80% af starfslaunum til samræmis við eftirlaunarétt sem aðrar stéttir vinna sér inn. Við leggjum þannig til lítils háttar hækkun á heiðurslaununum þannig að þau verði hin sömu og starfslaun listamanna á hverjum tíma, enda er það eðlilegt viðmið og sjálfsagt mál að um sé að ræða sömu krónutölu.

Ég held að það sé mjög heppilegt að við finnum framtíðarfyrirkomulag með þessum hætti. Eins og ég segi eru sjónarmið um það hjá þingmönnum og öðrum að Alþingi eigi almennt ekki að veita heiðurslaun til listamanna, en mín skoðun er afdráttarlaust sú, og meiri hlutans í nefndinni eftir heilmiklar og málefnalegar umræður, bæði í undirhópnum og í nefndinni sjálfri, að Alþingi skuli áfram veita heiðurslaun þeim listamönnum sem hafa skarað fram úr og eru komnir á aldur. Ég trúi því að þetta frumvarp, verði það að lögum, skapi þessu góðan ramma og eðlileg og fagleg viðmið um það hverjir komi til greina, hverjir skuli hljóta þennan heiður og þessi laun og um leið sé tryggt að áfram verði staðið að þessu með þessum hætti.