140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

heiðurslaun listamanna.

719. mál
[15:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var ágæt ábending og ágæt spurning frá hv. þingmanni. Þetta var töluvert rætt. Á fyrri stigum var talan hærri, nokkrir vildu einmitt hafa svigrúmið meira og töluna talsvert hærri. Var þá miðað við sama fjölda og lagður var til í þingsályktunartillögu frá hv. þm. Merði Árnasyni sem nefnir þetta hérna. Fyrir mitt leyti hefði ég viljað hafa töluna hærri og hafa fleiri á listanum. Ég held að við munum skoða þetta vel í nefndinni milli umræðna. Þetta var málamiðlun á milli þingmanna til að ná meiri hluta nefndarinnar á málið. Það var lögð áhersla á það af hálfu nokkurra að talan yrði lægri út frá því að þeim þótti það hóflegra, en aðrir vildu hafa hana hærri.

Það er mjög matskennt hve margir eiga að vera á listanum, hvort þeir eigi að vera 25, 35 eða 40. Við reiknuðum út meðaltöl síðustu ára og frá upphafi. Það voru á tímabili nokkru færri á heiðurslaunalistanum, en svo fjölgaði töluvert eftir aldamótin þannig að meðaltalið varð hærra þá. Mér finnst persónulega koma vel til greina að þessi tala verði hækkuð. Ég vona að samkomulag náist um það. Þetta var á lokasprettinum. Án þess að við gætum eytt meiri tíma í að ræða fjöldann varð þetta málamiðlun, samkomulag til að ná málinu fram með meiri hluta nefndarmanna á bak við sig. Metnaður okkar og tilgangur stóð alltaf til að ná sem flestum úr nefndinni á málið og úr sem flestum flokkum þannig að við munum skoða vel í nefndinni hver þessi tala verður að lokum.