140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

heiðurslaun listamanna.

719. mál
[15:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög athyglisverða og fína ræðu, ábendingar og spurningar.

Þegar við veltum fyrir okkur hvernig þessu verði best komið fyrir vakna einmitt margar spurningar. Hver er tilgangur slíkra launa? Eiga þau rétt á sér? Eykur þetta veg listarinnar? Byggir þetta undir greinina? Það er að sjálfsögðu markmiðið. Markmiðið er að tryggja meira fjármagn og meiri og betri stuðning við greinina og þá listamenn sem hafa að baki langan og gifturíkan feril.

Þegar þetta var tekið upp á sínum tíma fyrir 45 árum vakti það örugglega fyrir mörgum þingmönnum að þetta kæmi sem aðstoð við listamenn til að framfleyta sér, listamenn sem höfðu ekki áunnið sér eftirlaunarétt eða lífeyri sem þekktist lítið þá og var á frumburðarstigum. Það hefur sem betur fer gjörbreyst, nýliðun er góð og við höfum byggt upp öflugt menntakerfi í kringum listamenn. Listaháskólinn er kominn til sögunnar. Starfslaun listamanna eru orðin að veruleika og ýmiss konar umgjörð. Sem betur fer er heilmiklu fjármagni varið til þess að byggja undir og auka veg lista og gera listamönnum kleift að komast af stað. Mestu skiptir einmitt að styðja við ungu listamennina sem eru að byrja. Ég held að það sé gert með nokkuð bærilegum hætti þó að sjálfsagt mætti gera meira af því. Listirnar skila óhemjuverðmætum, fjármagni og alls konar auði til samfélagsins. Það hefur alltaf verið mjög vanmetið. Ágúst Einarsson tók saman bók um hagræn áhrif tónlistar sem eru gríðarleg og vaxandi. Ferðaþjónustan byggist mikið til á menningartengdri og listtengdri ferðaþjónustu.

Markmiðið er einmitt að tryggja og auka og byggja undir greinina og gera veg listarinnar meiri (Forseti hringir.) en ekki hið öndverða.