140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

heiðurslaun listamanna.

719. mál
[15:45]
Horfa

Huld Aðalbjarnardóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæt svör. Ég heyri að við erum mjög sammála í því hvað vegur listarinnar og menningarinnar sé okkur mikilvægur sem og nýliðunin og það að styðja við efnilega og unga listamenn.

Varðandi andann sem mér virðist vera í þessu frumvarpi, að heiðra eða veita viðurkenningu þeim listamönnum sem hafa staðið sig vel í sinni grein, eru til ótal aðferðir í sjálfu sér að fanga hann, hvort sem það er með launum eða einhvers konar viðurkenningu.

Í öllu falli ítreka ég að okkur ber að velta vel fyrir okkur hvernig við skiptum því fjármagni sem við höfum undir höndum. Ég ítreka líka að ég hef vissar efasemdir um að heiðurslaun séu leiðin til að auka veg listarinnar frekar en að ýta enn frekar undir unga og efnilega listamenn til frekari frama.