140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

heiðurslaun listamanna.

719. mál
[15:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mín skoðun er sú að eitt útiloki ekki annað heldur styðji þetta hvort annað, það að styðja unga og efnilega listamenn af stað og það að heiðra þá sem eldri eru. Inntak hugsunarinnar og þessa frumvarps er fyrst og fremst heiðurinn. Fyrir marga af þessum listamönnum skipta launin ekki miklu máli sem betur fer. Sumu af þessu fólki hefur gengið mjög vel og launin eru algjört aukaatriði en fólk metur heiðurinn mikils. Það skiptir miklu máli að listamennirnir eru óhemjumikilvæg stétt fyrir okkur sem þjóð, sjálfsvitund okkar og sögu. Ég hef mjög eindregna sannfæringu fyrir því að við eigum að halda áfram að heiðra listamenn með þessum hætti. Launin eru sem betur fer aukaatriði fyrir flesta. Heiðurinn er meginmálið og þess vegna leggjum við einmitt til að listamaður geti afsalað sér laununum en haldið heiðrinum, enda er það kjarninn í málinu og algjört inntak þess. Vonandi koma launin sér samt vel fyrir suma af þessum listamönnum og þess vegna miðum við við starfslaun.