140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

heiðurslaun listamanna.

719. mál
[15:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér um frumvarp til laga um heiðurslaun listamanna og ég ætla að byrja á að kvarta yfir að því fylgir engin umsögn um kostnaðinn. Hann er reyndar og hefur verið í fjárlögum þannig að það hefur verið ákvörðun Alþingis hverju sinni. Nú er verið að setja þetta í lög og þá sakna ég þess að hafa ekki umsögn til dæmis fjárlagaskrifstofu eða eitthvað slíkt.

Í Sovétríkjunum var mikið haldið upp á listamenn, þ.e. opinbera listamenn. Þeir gerðu fallegar styttur að þeirra mati og byggðu fallegar byggingar að mati stjórnvalda. Ég er ekkert voðalega hrifinn af þeim listaverkum sem þar voru sköpuð en þetta var svona opinber listastefna. Mér sýnist að þetta frumvarp stefni einmitt í þá átt, þráðbeint. Það er verið að búa til opinbera listamenn. Við höfum reyndar haft það hingað til. Ég hef alltaf haft miklar efasemdir um þessi heiðurslaun listamanna vegna þess að ég tel að þegar menn eru komnir á þann aldur að þurfa heiðurslaun séu þeir yfirleitt búnir að skapa sér þann fjárhagslega grunn að þeir geti lifað sæmilega af því og þurfi ekki á þessu að halda. Fyrir utan það að sá listamaður sem mestan heiður ætti skilið að mínu mati, Björk Guðmundsdóttir, hefur aldrei komið til tals, enda þyrfti hún ekkert á því að halda, en það getur samt verið. Ég hef reyndar lagt til í fjárlagaumræðu að hún fengi eina krónu á mánuði út af heiðrinum.

Þetta eru heiðurslaun Alþingis, var sagt hér í umræðunni. Þetta eru náttúrlega heiðurslaun skattgreiðenda, það eru þeir sem borga. Ég tel þetta mjög varasama þróun.

Ef ég væri listamaður mundi ég byrja á því, eftir samþykkt þessa frumvarps, að huga að því á hverju þingmenn hefðu áhuga sem list. Hvernig list vilja þingmenn sjá? Svo mundi ég skapa þá list og gæla svolítið við þá og sjá hvort ég kæmist ekki á jötuna.

Það vill svo til, frú forseti, að listamenn eru yfirleitt gagnrýnendur kerfisins. Þeir eru yfirleitt gagnrýnendur kerfisins og þeir gagnrýna það með list sinni. Hér er verið að múlbinda þá. Hér verið að reyna að teyma þá inn á jötuna þar sem þeir eru hlýðnir og góðir og búa til list sem er í samræmi við skoðanir stjórnmálamanna, hv. þingmanna.