140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

nauðungarsala, aðför, meðferð einkamála og fjármálafyrirtæki.

716. mál
[16:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni bæði fyrir andsvarið og sömuleiðis viðbrögðin. Já, ég þakka hv. þingmanni bara kærlega fyrir að bregðast svona vel við. Ég held að það sé skynsamlegt hjá hv. þingmanni og framsögumanni málsins að leggja þetta til. Ég hef haft mjög miklar áhyggjur af flýtimeðferð í málinu, ég geri ekkert í því núna en fyrir löngu flutti hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson frumvarp þess efnis sem ég flutti síðan eftir að hann vék af þingi. Ég veit af því, þó svo að það hafi verið vilji, held ég, allra sem komu að það væri æskilegt allra hluta vegna að flýta málum, að menn hafa ekki verið algjörlega á eitt sáttir um hvernig eigi að gera það. Ég hef mjög miklar áhyggjur af þessu.

Ég held hins vegar að nefndin hafi gert ýmislegt gott. Ég bað um sérstakan fund í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og að við mundum fá þangað fulltrúa frá Fjármálaeftirlitinu þegar í ljós kom eftir dóminn að það voru engar breytingar, engin viðbrögð frá fjármálafyrirtækjunum í kjölfar hans. Ég held, m.a. út af góðu starfi og samstöðu innan hv. efnahags- og viðskiptanefndar, að Fjármálaeftirlitið hafi beitt sér fyrir því að fjármálafyrirtækin mundu bregðast við með einhverjum hætti. Ég held að það hafi verið skynsamlegt og meðal annars slegið á tortryggni sem er mjög mikil af ástæðu.

Ég skal viðurkenna að ég er ekki alveg sannfærður um að það sé ekki rétt leið að lögfesta frumvarp um flýtimeðferð en aðalatriðið er að við ýtum á að málin gangi hratt fyrir sig, því að það er mjög alvarleg staða uppi núna meðan þetta er allt í lausu lofti og það kemur fram í ótrúlegustu myndum.