140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

bætt heilbrigðisþjónusta og heilbrigði ungs fólks.

680. mál
[16:53]
Horfa

Frsm. velfn. (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mjög jákvætt og uppbyggilegt mál sem er tillaga til þingsályktunar um bætta heilbrigðisþjónustu og heilbrigði ungs fólks.

Velferðarnefnd leggur til að Alþingi álykti að fela velferðarráðherra að skipa starfshóp til að vinna að bættri heilbrigðisþjónustu og heilbrigði ungs fólks á aldrinum 14–23 ára. Starfshópnum verði falið að halda áfram þeirri vinnu sem starfshópur sem skipaður var í september 2010 í sama skyni skilaði af sér og vinna úr tillögum hans. Lagt er til að hópurinn leggi sérstaklega fram tillögur að leiðum til úrbóta, þ.e. aðgerðamiðað. Að auki verði hópnum falið að undirbúa stofnun unglingamóttöku fyrir fólk á aldrinum 14–23 ára þar sem heilbrigðisþjónusta verði sniðin að þörfum þess. Litið skal til reynslu af starfsemi unglingamóttaka í Svíþjóð, Danmörku og Noregi og reynslu af þeim auk þess sem leita skal til fagfólks með mismunandi bakgrunn. Verkefnið verði tilraunaverkefni og grundvöllur að fleiri unglingamóttökum þegar reynsla af verkefninu hefur verið metin. Lagt er til að hópurinn skoði sérstaklega hvernig til hefur tekist á Norðurlöndunum og að leitað verði til fagfólks með mismunandi bakgrunn. Verkefnið verði tilraunaverkefni og grundvöllur að fleiri unglingamóttökum þegar reynslan hefur verið metin.

Starfshópur skilaði velferðarráðherra í september 2011 skýrslu um bætta heilbrigðisþjónustu og bætt heilbrigði ungs fólks. Í honum var fjöldi góðra fagmanna. Velferðarnefnd fékk þetta fólk á sinn fund þrisvar sinnum og fór yfir niðurstöðurnar en í skýrslunni eru raktar niðurstöður ýmissa rannsókna og staða ýmissa málaflokka sem snúa að heilbrigði og lífsstíl ungs fólks og tiltekin ýmis úrræði og þjónusta sem í boði er. Þar eru einnig tillögur um næstu skref.

Í kjölfar þess að velferðarnefnd hélt áðurnefnda þrjá fundi taldi hún afar mikilvægt að haldið yrði áfram með þessa vinnu og leggur því fram þessa tillögu, þ.e. bæði um aðgerðamiðaðar tillögur svo og að það verði skoðað mjög ákveðið að koma á fót unglingamóttöku sem fólk á aldrinum 14–23 ára geti leitað til. Lagt er til að einungis verði byrjað með eina unglingamóttöku sem opni til dæmis í miðborg Reykjavíkur og reynslan verði síðan notuð til að meta grundvöll til opnunar fleiri.

Örlítið um innihald skýrslunnar. Mörg atriði voru skoðuð, svo sem um lífsstíl og heilbrigði almennt, ofþyngd og offita, tannheilsa, geðheilbrigði, sjálfsvíg og sjálfsvígshugleiðingar, vímu-, fíkniefna- og áfengisneysla, slys og meiðsli, ofbeldi, þar á meðal kynferðislegt ofbeldi, kynheilbrigði og kynhegðun og ungt fólk með langvinnan heilsuvanda.

Ég ætla bara að tæpa á örfáum atriðum sem mér finnst kannski ekki síst skipta máli. Til dæmis finnst mér mjög merkilegt að ætla má að 12–15% ungmenna glími við vægan geðrænan vanda og 2–5% eigi við alvarlegar hegðunar- og geðraskanir að stríða. Í skýrslunni er greint frá stofnun vinnuhóps til að bregðast við vaxandi misnotkun á rítalíni og skyldum geðlyfjum, en notkun geðlyfja hefur farið mjög vaxandi á undanförnum árum. Það kemur fram að samvinnu á milli stofnana sé oft ábótavant og erfitt fyrir unga einstaklinga með geðraskanir að fara á milli skólastiga vegna þessa og því þurfi að bæta samvinnu og eftirfylgni.

Einnig er minnst á að við 18 ára aldur breytist mjög þjónusta við ungmenni með geðraskanir og það geti verið erfitt fyrir þessi ungmenni að gera sér grein fyrir hver breytingin er og hvert þeir eigi að snúa sér. Bent er á í sambandi við vímu- og fíkniefnaneyslu að náðst hafi góður árangur í grunnskóla en að enn þurfi að beita sér fyrir forvarnastefnu og forvarnavinnu í framhaldsskóla.

Þá er talað um kynheilbrigði íslenskra ungmenna sem því miður er ekki í nógu góðu lagi. Tíðni fólks sem greinist með kynsjúkdóma er hærri hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum. Ungmenni eiga einnig fleiri bólfélaga að meðaltali en þar og mikilvægt er að grípa til aðgerða til að sporna við þessari þróun. Þar var meðal annars mjög ákveðið rætt um nauðsyn þess að gera smokka aðgengilegri fyrir ungmenni og starfshópnum er falið að skoða þetta sérstaklega með tilliti til þess að bæta kynheilbrigði ungs fólks.

Lögð er mikil áhersla á þjónustu við ungt fólk með langvinnan heilsuvanda og langveik ungmenni en nokkuð hið sama er upp á teningnum þar og þegar um er að ræða ungmenni með geðraskanir að þjónustan er dreifð og samvinnu er ábótavant.

Mig langar að fara örstutt í lokakafla skýrslunnar en þar eru lagðar fram tillögur og sérstaklega er talað þar um að næsta viðfangsefni verði að leita eftir viðhorfum þeirra sem nýta heilbrigðisþjónustuna og þá sem veita hana og koma 13 tillögur fram hjá hópnum. Mig langar til að tæpa á örfáum atriðum. Það er talað um að efla þekkingu og vitund fagfólks á sérstöðu og sérþörfum ungs fólks, bæta aðgengi ungs fólks að heilbrigðisþjónustu og sníða þjónustuna að þörfum þessa hóps, auka samstarf, kanna möguleika á unglingamóttöku, huga að yfirfærslu þjónustu þegar börn verða unglingar og unglingar verða fullorðnir, efla forvarnir, leita hugmynda og samstarfs við ungt fólk og byggja á reynslu annarra þjóða.

Síðan er sérstaklega talað um unglingamóttökuna. Það kom mjög ákveðið fram að það skiptir máli að þar komi að allir faghópar og það skiptir ekki síst máli að við slíka móttöku starfi fólk sem hefur reynslu ekki síður en þekkingu af því að vinna með ungu fólki og kunni að ræða við það um viðkvæm málefni. Það er sérstaklega talað um að skoðað verði að efla heilsugæslu í framhaldsskólum en henni hefur verið ábótavant. Talað er um að það sé ekki endilega æskilegast að hafa slíka unglingamóttöku í sama húsi og heilsugæslan, heldur eigi að horfa til þess að hún verði á stað sem ungmenni eru tilbúin til að fara á og opin á þeim tímum sem ungmenni þurfa á henni að halda.

Loks er kafli um hvernig skipa skuli starfshópinn og gefinn er ákveðinn leiðarvísir í því sambandi, eins og að kanna sérstaklega hvernig bæta megi viðmót heilbrigðisþjónustunnar svo aðlaðandi verði fyrir þennan aldurshóp að leita viðeigandi þjónustu sem og og hvort kostnaðarþátttöku þurfi að breyta, t.d. hvað varðar getnaðarvarnir. Talað er um að eðlilegt sé að einhverjir þeirra sem voru í fyrri starfshópi verði áfram til að skapa samfellu og síðast en ekki síst er lögð mikil áhersla á að fulltrúi ungmenna fái sæti í hópnum til að tryggja aðkomu notenda heilbrigðisþjónustunnar að starfinu.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til síðari umr.