140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

skattar og gjöld.

653. mál
[17:18]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld. Um er að ræða tillögur um breytingar á skattalögum sem eru af ólíkum toga en flestar varða framkvæmdaleg atriði.

Þessum breytingum má skipta í sex meginflokka. Í fyrsta lagi eru breytingar á tekjuskattslögum sem skipta má í fjóra þætti.

Í fyrsta þætti eru lagðar til breytingar á ákvæði vaxtabóta í þá veru að bætt er við ákvæði er kveður á um það að þegar einungis annað hjóna er skattskylt hér á landi skuli ákvarða því vaxtabætur hér á landi eftir þeim reglum sem gilda um hjón, enda liggi fyrir upplýsingar um tekjur beggja.

Í öðrum þætti er lögð til frádráttarheimild til handa þeim sem hafa tekjur af leigu á íbúðarhúsnæði og bera takmarkaða skattskyldu hér á landi til samræmis við þá sem hafa ótakmarkaða skattskyldu.

Í þriðja þætti er um að ræða tillögu er varðar skýrari tilvísun til ákvæða laganna vegna fyrirframgreiðslu sérstaks fjársýsluskatts.

Loks er með breytingum á bráðabirgðaákvæði XL lagt til að endurreikningur á ólögmætum vöxtum gengistryggðra húsnæðis- og bílalána einstaklinga utan atvinnurekstrar, í kjölfar dóms Hæstaréttar, hafi engin skattaleg áhrif og leiði ekki til endurákvörðunar barna- og vaxtabóta.

Í öðru lagi er um að ræða breytingar á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda þar sem lagt er til að skýrar verði kveðið á um skyldu milligönguaðila til að halda eftir staðgreiðslu.

Í þriðja lagi er lögð til breyting á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur þannig að skylt verði að skila sundurliðuðum skilagreinum við skil á staðgreiðslu skatts frá og með 1. janúar 2013.

Í fjórða lagi er lögð til sú breyting á lögum um tryggingagjald að gjalddaga gjalds verði breytt úr 1. ágúst í 1. nóvember í tilviki lögaðila, en það er í samræmi við þá framkvæmd sem verið hefur.

Í fimmta lagi er lögð til sú breyting á lögum um erfðafjárskatt að felld verði brott skylda ríkisskattstjóra til að tilkynna erfingjum um lok yfirferðar á erfðafjárskattsskýrslu.

Í sjötta lagi er lagt til að lög um umhverfis- og auðlindaskatta verði gerð ótímabundin en ella falla þau úr gildi í lok þessa árs.

Áætlað er að kolefnisgjald á fljótandi jarðefnaeldsneyti og skattur af seldri raforku og heitu vatni skili ríkissjóði 5,8 milljarða kr. tekjum í ár og er gengið út frá þessari tekjuöflun í fyrirliggjandi áætlun um ríkisfjármál fyrir árin 2012–2015. Þá má gera ráð fyrir að með breytingu á bráðabirgðaákvæði tekjuskattslaga XL kunni ríkissjóður að verða af lækkun vaxtabóta sem að óbreyttum lögum yrðu ákvarðaðar. Upplýsingar um líklegar fjárhæðir liggja þó ekki fyrir.

Að öðru leyti er ekki talið að breytingarnar muni hafa teljandi áhrif á útgjöld og tekjur ríkissjóðs, verði frumvarpið óbreytt að lögum, umfram það sem þegar hefur verið gerð grein fyrir.

Virðulegur forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.