140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

virðisaukaskattur.

666. mál
[17:28]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Tilefni frumvarpsins er að meginstefnu til tvíþætt. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á lögum vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts til sveitarfélaga og stofnana eða félaga sem alfarið eru í þeirra eigu. Lagt er til að endurgreiða skuli sveitarfélögum og stofnunum og félögum sem alfarið eru í þeirra eigu virðisaukaskatt vegna innflutnings eða kaupa á sérútbúnum ökutækjum, tækjabúnaði og hlífðarfatnaði vegna slökkvistarfa, mengunaróhappa og björgunar á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum. Breytingin er lögð til í kjölfar samkomulags frá 5. október 2011 þar sem fjármálaráðherra, innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra af hálfu ríkisins og Samband íslenskra sveitarfélaga af hálfu sveitarfélaga gerðu með sér samkomulag um tímabundna breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Samkomulagið á rætur að rekja til þeirrar ákvörðunar ríkis og sveitarfélaga að efla tónlistarnám og jafna aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms.

Samkvæmt samkomulaginu er tekin sú ákvörðun að frá og með árinu 2012 skuli komið á varanlegu fyrirkomulagi sem felst í því að beiðnir sveitarfélaga og stofnana og félaga sem alfarið eru í þeirra eigu verði afgreiddar með sama hætti og beiðnir björgunarsveita og annarra þeirra sem njóta slíkrar ívilnunar gagnvart virðisaukaskatti. Í dag hefur það fyrirkomulag verið viðhaft á endurgreiðslu virðisaukaskatts til sveitarfélaga og opinberra félaga á þeirra vegum að veittir hafa verið fjármunir í fjárlögum hverju sinni vegna þessa. Þær breytingar sem hér eru lagðar til fela það í sér að réttur sveitarfélaga til endurgreiðslna er rýmkaður lítillega. Því má gera ráð fyrir að endurgreiðslur vegna þessa aukist eitthvað en þó varla nema lítils háttar.

Í öðru lagi er lögð til tímabundin breyting á lögunum til og með 31. desember 2013. Lagt er til að við innflutning eða skattskylda sölu nýrra rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða verði heimilt við útreikning virðisaukaskatts að lækka tollverð eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð upp að ákveðnu hámarki. Við mat á þessum fjárhæðum er litið til innkaupsverðs og rekstrarkostnaðar á líftíma ökutækjanna samanborið við innkaupsverð og rekstrarkostnað á líftíma sambærilegra bensín- og dísilbifreiða. Einnig er lagt til að litið verði til losunar á koltvísýringi hvað varðar tengiltvinnbifreiðar þar sem þær eru með skráða losun andstætt rafmagns- og vetnisbifreiðum.

Markmið tillagnanna er að efla og flýta fyrir orkuskiptum í samgöngum. Vegna kostnaðar umræddra ökutækja er ein leiðin sú að gera þau að vænlegri kosti en verið hefur og styrkja samkeppnishæfni þeirra gagnvart hefðbundnum bensín- og dísilknúnum ökutækjum. Í frumvarpinu eru því lagðar til frekari ívilnanir vegna ökutækja af þessu tagi í von um að dreifing þeirra verði útbreiddari og almennari og að sú þróun eigi sér stað fyrr en annars hefði orðið raunin. Það er því ljóst að til mikils er að vinna fyrir Ísland með þeim umhverfislega ávinningi sem hlýst af almennri notkun rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiða hér á landi.

Ekki er hægt að vita fyrir víst hversu mikill innflutningur rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiða verði án þeirra fyrirhuguðu breytinga sem hér eru lagðar til. Undanþágan mun þó líklega leiða til þess að aukning verði í innflutningi þessara ökutækja á kostnað hefðbundinna bensín- og dísilknúinna ökutækja. Vegna þessa er erfitt að meta kostnað fyrirhugaðra breytinga.

Í þriðja lagi er lagt til að endurgreiðsla á virðisaukaskatti verði háð því skilyrði að seljandi vöru og þjónustu sé skráður á virðisaukaskattsskrá.

Aðrar tillögur í frumvarpinu eiga það sameiginlegt að vera það sem kallað hefur verið lagahreinsun þar sem tilvísanir til annarra laga eru leiðréttar og úrelt ákvæði felld brott.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.