140. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2012.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

698. mál
[17:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga sem meiri hluti velferðarnefndar flytur. Auk mín eru það hv. þingmenn Lúðvík Geirsson, Ólafur Þór Gunnarsson, Valgerður Bjarnadóttir, Eygló Harðardóttir og Guðmundur Steingrímsson.

Markmið laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, er að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð.

Að uppfylltum skilyrðum í kjölfar gagnaöflunar er heimilt að fara þess á leit við umboðsmann skuldara að hann samþykki umsókn um heimild til að leita eftir greiðsluaðlögun með samningi við kröfuhafa. Sá samningur getur bæði tekið til krafna sem tryggðar eru með veðrétti í eign skuldara og krafna sem engin slík trygging er fyrir eða einungis til krafna af öðrum hvorum meiðinum.

Upphafleg lög um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, eru einsdæmi og þar er fetaðar ótroðnar slóðir. Það var því ljóst frá upphafi að lögin þyrftu að vera í sífelldri endurskoðun og að þeim þyrfti að breyta og bæta þau eftir þörfum og reynslu af virkni þeirra. Unnið er að heildarendurskoðun laganna í velferðarráðuneytinu. Það er umfangsmeira verk en talið var í upphafi og ljóst að það mun ekki klárast á þessu þingi. Því var ákveðið að leggja fram frumvarp sem felur í sér breytingar sem koma skuldurum verulega til góða og skýra og einfalda ýmsa þætti laganna. Við vinnu nefndarinnar komu til okkar fulltrúar frá velferðarráðuneytinu, umboðsmanni skuldara og fulltrúar frá helstu viðskiptabönkum og Samtökum fjármálafyrirtækja.

Það má segja að breytingarnar séu í fimm liðum.

1. Ef greiðslugeta skuldara er neikvæð verður hægt að synja honum um greiðsluaðlögun. Hingað til hefur ekki verið kveðið skýrt á um það hvernig á að fara með umsóknir aðila með neikvæða greiðslugetu. Skuldari getur þó fengið aðstoð frá umboðsmanni skuldara til að leita gjaldþrotaskipta á búi sínu. Umboðsmaður skuldara getur lagt fram nauðsynlega tryggingu fyrir skiptakostnaði, 250 þús. kr., en hann þarf að rökstyðja þá ákvörðun sína sérstaklega og skriflega. Heimildin á ekki að hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir umboðsmann skuldara þar sem við fyrstu rannsókn umboðsmanns á strax að koma í ljós hvort greiðslugeta skuldara sé neikvæð og honum því synjað um greiðsluaðlögun. Þá þarf ekki að ráða umsjónarmann samkvæmt lögunum til að sjá um samningaumleitanir við kröfuhafa en umboðsmaður skuldara ber kostnað af störfum umsjónarmanna. Þetta ætti því ekki að hafa í för með sér aukinn rekstrarkostnað fyrir embættið í heild sinni.

Neikvæð greiðslugeta þýðir að tekjur viðkomandi nýtast aðeins til framfærslu samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara, enginn afgangur er til að borga kröfuhöfum. Ef miklar skuldir eru hafa kröfuhafar engan hag af því að óska eftir gjaldþrotaskiptum. Skuldarar í þessari stöðu sjá því ekki fram á neina lausn sinna mála en eru jafnvel með skuldir við marga tugi kröfuhafa. Því getur það verið úrræði fyrir suma, líklega afar fáa, að geta farið í gegnum gjaldþrotaskipti en þeir eiga hins vegar aldrei fyrir skiptakostnaðinum sjálfir, þess vegna er þetta úrræði fyrir þá verst settu.

Heimild umboðsmanns skuldara til að greiða skiptakostnaðinn á aðeins við ef engin þeirra atriða sem fram koma í 1. mgr. 6. gr. laganna eiga við. Þau atriði eru: Það er ekki skilyrði fyrir greiðsluaðlögun samkvæmt gögnum, t.d. ef skuldari á eignir til að selja, fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara, skuldari hefur stofnað til skulda eða hagað sér óheiðarlega í þeim tilgangi að fá greiðsluaðlögun, veittar hafa verið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar af ásetningi eða gáleysi eða skuldari hefur áður fengið greiðsluaðlögun.

Ef eitthvað af þessu á við ber umboðsmanni að synja um greiðsluaðlögun. Ef skuldari hefur neikvæða greiðslugetu og ekkert af framansögðu á við hefur umboðsmaður heimild í undantekningartilvikum til að borga skiptakostnað.

2. Kærufrestur laganna er lengdur úr tveimur vikum í fjórar vikur. Í upphaflegu frumvarpi sem varð að lögum 2010 var kærufrestur ein vika sem var of skammur tími. Með lögum nr. 135/2010 var fresturinn lengdur í tvær vikur sem enn þykir of skammt og því er hér lagt til að hann verði lengdur í fjórar vikur þannig að réttaröryggi umsækjenda sé tryggt að því leyti að þeim gefist örugglega færi á því að kæra þær ákvarðanir sem hugsanlega þarf að kæra. Það er ekki skuldara í hag að tefja mál með því að fullnýta kærufrest á öllum stigum þar sem frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, kemst ekki á fyrr en umboðsmaður hefur samþykkt umsóknina.

3. Kröfurnar bera ekki dráttarvexti meðan á frestun greiðslna stendur, samanber 11. gr. laganna, heldur aðeins samningsvexti. Það má telja eðlilegt þar sem tilgangur dráttarvaxta er að knýja á um greiðslu krafna en skuldari má ekki greiða kröfur á meðan á frestun greiðslna stendur. Aðeins verður heimilt að reikna dráttarvexti á kröfu ef skuldari er í vanskilum samkvæmt samningi um greiðsluaðlögun.

4. Afborgunarfjárhæð í samningi um greiðsluaðlögun er föst krónutala en ekki bundin launavísitölu. Það getur valdið erfiðleikum að reikna vísitöluna og svo getur vísitöluhækkun valdið því að það sem lagt var upp með við gerð samningsins um greiðsluaðlögun stenst ekki vegna hækkana afborgananna.

5. Breytingar verða á ákvæðum um breytingar á samningi um greiðsluaðlögun. Skuldari leitar til umboðsmanns sem hefur síðan milligöngu gagnvart kröfuhöfum um að breyta samningnum. Það er eðlilegra og mun líklegra til að bera árangur þar sem sérfræðingar eru hjá umboðsmanni skuldara.

Skilyrði um algjörlega ófyrirsjáanlegt atvik er tekið út og sett í staðinn ákvæði um sérstakar aðstæður. Það getur til dæmis átt við þegar greiðsluskylda fellur á skuldara vegna ábyrgðarskuldbindinga, svokallaðra sjálfskuldarábyrgða, á skuld þriðja aðila.

Skylda er til að fullreyna að ná samningum. Breytingar við kröfuhafa eru teknar út og skuldari þarf nú að beina kröfu um breytingar á samningnum til umboðsmanns sem metur hvort gera eigi breytingar. Kröfuhafi getur krafist ógildingar eða breytingar og beinir kröfum um það til umboðsmanns skuldara. Skilyrðin eru alveg óbreytt, t.d. að fjárhagsstaða skuldara hafi batnað. Hægt er að kæra ákvörðun umboðsmanns um breytingar eða ógildingu samnings um greiðsluaðlögun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Við ákveðnar aðstæður fellur samningur um greiðsluaðlögun sjálfkrafa úr gildi þegar skuldari fær heimild til að leita nauðasamninga, þegar bú hans er tekið til gjaldþrotaskipta eða skuldari deyr og erfingjar taka ekki ábyrgð á greiðslu skulda.

Þau atriði sem fram koma í þessu frumvarpi eiga öll að vera breytingar til bóta fyrir skuldara þannig að úrlausn á skuldamálum þeirra verði einfaldari og skilvirkari. Ég minni á að þetta er einungis fyrsti áfangi, það er unnið að heildarendurskoðun í ráðuneytinu og vonandi fáum við endurskoðað heildarlagafrumvarp hér til vinnslu í þinginu strax næsta haust.

Ég legg til að þessu máli verði vísað til 2. umr.