140. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:07]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta voru viðamiklar spurningar en allar fullkomlega eðlilegar í ljósi þeirrar umræðu sem hér á sér stað. Í fyrsta lagi vil ég segja að ég tel ekki að það sé gott fyrirkomulag sem hér var komið á með lagabreytingu í september á síðasta ári þegar dregið var úr hlutverki Alþingis í sambandi við ráðuneytaskipan. Ég held þvert á móti að það væri eðlilegra að hverfa til þess fyrirkomulags sem var fyrir september á síðasta ári, að ráðuneytin séu í meginatriðum bundin með lögum. Verði ég á þingi eftir næstu kosningar mun ég gera það að minni tillögu, þótt ég geti með engu móti sagt fyrir um hvað flokkur minn gerir, hvað þá ef hann lendir í samsteypustjórn, að við hverfum til þess fyrirkomulags sem áður var, að megindrættirnir í uppbyggingu ráðuneyta og Stjórnarráðsins verði lögbundin.

Varðandi einstakar breytingar, þ.e. innihaldið, hvað ráðuneytin heita og hvernig þau eiga að vera, vísa ég til þess sem ég sagði áðan. Ég tel að þegar við höfum gengið í gegnum ákveðnar breytingar þurfi að líða ákveðinn tími áður en við í rauninni komumst á þann stað að geta lagt mat á kosti og galla þeirra skrefa sem stigin hafa verið. Ég held að fyrsta skrefið væri að minnsta kosti að reyna að átta sig á því hvernig breytingarnar hafa reynst, fara í vinnu við það. Ég tel ekki að við sjálfstæðismenn séum á nokkurn hátt bundnir af þeirri stefnumörkun sem núverandi ríkisstjórn hefur tekið upp í þessum málum þannig að ég held að við mundum skoða það með opnum huga (Forseti hringir.) en varðandi tímasetningar tel ég eðlilegast að ný ríkisstjórn (Forseti hringir.) fari í breytingar af þessu tagi sem fyrst eftir að hún tekur við völdum.