140. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:09]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Eins og ég skil hann hlýtur hann líka að vera ósammála túlkun forsætisráðherra. Stjórnarskráin er eitt af því sem við sverjum eið að þegar við tökum sæti á Alþingi. Forsætisráðherra heldur því fram að samkvæmt stjórnarskránni sé heimilt að sleppa því að koma með þetta inn í þingið, þ.e. þessa megindrætti eða skipan Stjórnarráðsins.

Mér þykir áhugavert að bera svör hv. þingmanns saman við svör hv. þm. Illuga Gunnarssonar sem ég spurði svipaðrar spurningar fyrr í dag. Hann upplýsti að í sinni tíð sem aðstoðarmaður þáverandi forsætisráðherra hefðu komið upp þau sjónarmið innan þeirrar ríkisstjórnar, sem okkar flokkar áttu þá aðild að, að ákveðinn ósveigjanleiki væri fólginn í því fyrirkomulagi sem var afnumið af þessari ríkisstjórn hvað varðar skipan mála í Stjórnarráðinu og að þar hafi menn verið farnir að skoða að breyta fyrirkomulaginu meira í átt að því sem þekkist í Danmörku. Hv. þingmaður þekkir svo sem afstöðu mína í þessu máli og þá vinnu sem ég tók þátt í á vegum Framsóknarflokksins, m.a. við mótun að nýju frumvarpi um Stjórnarráðið.

Ég tek hins vegar undir þann málflutning sem hefur komið fram um tímasetninguna, hversu seint þetta er fram komið, og það að maður getur líka haft þá skoðun að þær tillögur sem eru komnar fram séu mjög vitlausar þó að maður sé jafnframt þeirrar skoðunar að forsætisráðherra og ríkisstjórn hennar sé svo sem frjálst að ana áfram í þessari vitleysu. Við getum hins vegar varað við henni.