140. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:34]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Við undirbúning þessa máls höfðu ríkisstjórnarflokkarnir og stjórnarmeirihlutinn ekkert samráð við flokka stjórnarandstöðunnar um framkvæmd málsins og hvernig eðlilegt væri að skipan Stjórnarráðsins væri því að ljóst er að skipan Stjórnarráðsins skiptir máli fyrir stjórnskipan landsins til lengri tíma.

Mig langar að spyrja hv. þingmann sérstaklega út í þann þátt sem snýr að skipan efnahagsmála. Það er sá þáttur í þessum tillögum sem virðist hafa komið mjög skyndilega upp í huga flutningsmanns tillögunnar. Um áramótin síðustu voru engar fréttir um að til stæði að fara með efnahagsmálin inn í fjármálaráðuneytið og nú háttar svo til að ein lykilstofnun samfélagsins, Seðlabanki Íslands, er að flytjast undir þriðja ráðuneytið á þessu kjörtímabili. Mig langar til að spyrja hv. þingmann að því hver hann telji að sé raunverulega ástæðan fyrir því að (Forseti hringir.) verið er að flytja efnahagsmál á þessum tímapunkti, skömmu fyrir kosningar.