140. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vissulega er mjög sérkennilegt hvernig að þessu er staðið nú af þeim ástæðum sem hv. þingmaður lýsti. Hæstv. forsætisráðherra var alfarið andsnúin því að setja efnahagsmálin inn í fjármálaráðuneytið fyrir ekki svo löngu síðan en beitir sér nú mjög hart fyrir því. Eins og ég rakti í ræðu minni þá hafa ekki verið sett fram nein ný sannfærandi rök fyrir því að það eigi allt í einu að vera fyrirkomulagið. Þess vegna skil ég vel að menn skuli fylla í þessa eyðu, leggja saman tvo og tvo og gera ráð fyrir því að þetta sé hluti af því að uppfylla einhvers konar leiðbeiningar frá Evrópusambandinu.

Nú liggur það fyrir að Evrópusambandið hefur verið að leiðbeina íslenskum stjórnvöldum og gefa þeim svolítið klapp á kollinn þegar þau gera breytingar í samræmi við það sem til er ætlast. Þegar hv. þm. Jón Bjarnason var settur út úr ríkisstjórn var sérstaklega talin ástæða til að fagna því af hálfu Evrópusambandsins. (Forseti hringir.) Við höfum séð að Evrópusambandið hefur skoðanir á því hvernig raða eigi málum í ráðuneyti. (Forseti hringir.) Við höfum líka séð að ríkisstjórnin er (Forseti hringir.) tilbúin að uppfylla kröfur Evrópusambandsins þannig að menn leggja saman tvo og tvo.