140. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður minnist þess eflaust eins og líklega flestir að þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum var kjörorðið „allt uppi á borðum“ — allsherjargagnsæi átti að vera ríkjandi og allt uppi á borðum. Á þeim þremur árum sem liðin eru er þetta náttúrlega farið að hljóma eins og grín því að leyndarhyggjan hefur líklega aldrei verið jafnmikil.

Það er sérstaklega skondið að í málefnum Evrópusambandsins, eða aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið, skuli menn þurfa að vera nánast eins og leynilögreglumenn í stöðugri rannsóknarvinnu til að komast að því hvað ríkisstjórnin er að gera í fyrsta lagi og til hvers Evrópusambandið ætlast. Mér þætti það sjálfsagt mál og í rauninni nauðsynlegt að Evrópusambandið útlistaði hvernig það vildi sjá ráðuneytin í ljósi þess að það hefur greinilega skoðanir á því þar sem það ályktar um það fram og til baka þegar breytingar eru gerðar. (Forseti hringir.) Það væri því betra að þetta lægi bara fyrir og ríkisstjórnin upplýsti jafnframt að hve miklu leyti hún ætlaði að uppfylla kröfur ESB.