140. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:45]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður er í utanríkismálanefnd og þar fá þingmenn að fylgjast náið með því sem er að gerast í þessu Evrópusambandsaðlögunar- og aðildarferli. Við erum minnug þess að Evrópuþingið sá sérstaka ástæðu til að álykta í heild sinni og fagna ráðuneytabreytingum á Íslandi og hvatt til þess að það yrði haldið áfram á sömu braut. Því var jafnframt ljóst að ég var á móti því að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og það hefur allt sínar afleiðingar.

Var farið í utanríkismálanefnd yfir tengsl Evrópusambandsumsóknarinnar og þeirra vilyrða sem Ísland, ef af verður, er að gefa í tengslum við aðlögunar- og umsóknarferlið að Evrópusambandinu við þetta frumvarp og ákvarðanirnar um stjórnarráðsbreytingarnar?