140. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:46]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef að minnsta kosti ekki farið yfir þessi stjórnarráðsmál í utanríkismálanefnd og ég kannast ekki við að hafa heyrt að það hafi verið gert í fjarveru minni þó að reyndar gerist eitt og annað í utanríkismálanefnd er varðar Evrópumálin þegar ekki eru allir mættir eins og frægt er orðið. Ég kannast ekki við að menn hafi farið yfir þessi mál og þetta lýtur auðvitað að spurningu sem hv. þm. Ólöf Nordal spurði mig áðan: Er ekki nauðsynlegt að það komi í ljós hver raunverulegur vilji Evrópusambandsins er varðandi skipan ráðuneyta svo menn geti þá rætt þau mál, m.a. í utanríkismálanefnd? Ég held að það væri mjög æskilegt.

Fyrst það er ljóst að Evrópusambandið hefur á þessu skoðanir og ályktar sérstaklega um það þegar gerðar eru breytingar, hvort þær séu í samræmi við það sem til er ætlast eða ekki, ályktar meira að segja sérstaklega um það að fagna brotthvarfi hv. þingmanns úr ráðherrastóli, þætti mér (Forseti hringir.) miklu betra og eðlilegra að það lægi einfaldlega fyrir (Forseti hringir.) hvernig Evrópusambandið ætlast til að við höfum þetta.