140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

stjórnarfrumvörp til afgreiðslu.

[10:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Nú eru tíu þingdagar eftir af þessu Alþingi auk örfárra daga fyrir nefndir til að starfa. Ríkisstjórnin hefur kosið að leggja aðaláherslu á nokkur stór mál sem komu mjög seint fram. Þau hafa nú farið í umsagnarferli og fengið alveg hreint hrikalega útreið hjá umsagnaraðilum. Ég nefni sem dæmi sjávarútvegsfrumvörpin frá sjávarútvegsráðherra sem fá þá einkunn að um helmingur allra stærri útgerða í landinu muni ekki ráða við greiðslubyrði sína verði lögin staðfest á Alþingi og að 75% af smærri fyrirtækjum muni ekki ráða við greiðslubyrði sína verði lögin staðfest.

Ég get líka nefnt til sögunnar rammaáætlunina sem fékk þá umsögn frá umsagnaraðilum í þessari viku að fikt ríkisstjórnarinnar við þau drög sem fagaðilar höfðu undirbúið muni leiða til þess að á árunum fram til 2016 muni 5 þús. ársverk tapast, það muni draga úr fjárfestingum miðað við það sem áður mátti áætla um á að giska 260 milljarða. Helstu frumvörp ríkisstjórnarinnar sem hún leggur mesta áherslu á og mestur tími þingsins fer í þessa fáu daga sem eftir eru eru frumvörp þar sem þúsundir starfa munu tapast og fjöldi fyrirtækja í okkar mikilvægustu atvinnugreinum muni hreinlega fara á hausinn. Er ekki kominn tími fyrir hæstv. forsætisráðherra til að forgangsraða upp á nýtt og fara aðeins yfir listann af þingmálum og spyrja sig: Eru einhver mál yfir höfuð sem horfa til framfara af þeim sem fyrir þinginu liggja? Væri ekki til dæmis ágætt að hugleiða að fallast á frumvarp sjálfstæðismanna (Forseti hringir.) um að flýta dómsmeðferð ágreiningsmála út af skuldauppgjöri? Það er mál sem hefur beðið í nokkur ár en stjórnarmeirihlutinn hefur ávallt (Forseti hringir.) komið í veg fyrir að verði lögfest.