140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

stjórnarfrumvörp til afgreiðslu.

[10:37]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það er út af fyrir sig rétt hjá hæstv. forsætisráðherra að það er ekki óvanalegt að við séum með fjölmörg mál óafgreidd á vorþingi. Það sem er óvanalegt er að þessi mál eru nýkomin inn í þingið, þau eiga almennt séð að koma fram á haustin, vera í vinnu á þinginu yfir allan veturinn og svo tökum við þau til lokaafgreiðslu á vorin. Þetta er ekki að gerast. Það er vegna þess að málin eru nýkomin inn í þingið.

Það sem ég vek hér athygli á er að umsagnir um stærstu mál ríkisstjórnarinnar eru hrein falleinkunn í þessum stóru málum. Hvernig ætlar þessi ríkisstjórn að bera ábyrgð á því að þingið ætli að verja þeim fáu dögum sem eftir eru til að vinna framgang málum þar sem stór hluti útgerðarinnar mun lenda í greiðsluþroti, þar sem við afgreiðum rammaáætlun sem mun fórna stórkostlegum fjárfestingarkostum og draga úr möguleika okkar til hagvaxtar með nýrri fjárfestingu? Hvernig ætlar ríkisstjórnin að bera ábyrgð á þessu og hvers vegna eru menn að þessu? (Forseti hringir.) Hvers vegna sjá menn þetta einfaldlega ekki? Það eru ekki skiptar skoðanir um sjávarútvegsmálin, það er ekki rétt hjá forsætisráðherra, það eru allir sammála um að þau séu ónýt. Hvers vegna er verið að nota okkar dýrmæta tíma í slík mál? Tökum þau bara út af borðinu.