140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

skuldavandi heimilanna.

[10:44]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Aumingjaskapur ríkisstjórnarinnar ríður ekki við einteyming. Það er algjörlega til skammar að hæstv. forsætisráðherra vísi hér til þess að samstarf við lífeyrissjóðina sé erfitt, að það vanti greiningu á þessum skuldum. Síðan dregur hún í efa að þær upplýsingar sem koma frá Creditinfo, sem heldur utan um þá vanskilaskrá sem er við lýði á Íslandi, séu hugsanlega réttar.

Virðulegi forseti. Það er ár í kosningar og þessi ríkisstjórn hefur ekki bara haft þetta kjörtímabil heldur líka árið þar á undan til að ráðast í þessi mál, til að safna saman öllum upplýsingum og stíga þau nauðsynlegu skref (Forseti hringir.) sem þarf til að leysa þennan vanda.

Ég vil fá betri og raunsæja (Forseti hringir.) lýsingu á því hvað ríkisstjórnin ætlar að gera, ekki eintómar afsakanir.