140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

Grímsstaðir á Fjöllum.

[10:47]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við höfum fregnir af því að Kínverjinn Huang Nubo hafi með aðstoð sveitarfélaga á Norðausturlandi tekið sænska skúffufyrirtækisleið á aðferð sína til að komast yfir íslenska auðlind, í þessu tilfelli land. Aðkoma og framferði sveitarfélaganna á svæðinu í málinu gengur beint gegn ákvörðun íslenskra stjórnvalda sem vildu takmarka möguleika þessa augljósa útsendara kínverskra stjórnvalda til stórfelldra landakaupa hér á landi. Þau hafa tekið afstöðu með kínverskum stjórnvöldum og gegn íslenskum. Í stað sænsks skúffufyrirtækis hefur hann nú fjármagnað sveitarfélög á svæðinu sem skúffufyrirtæki væru.

Það er ótrúlegt að horfa upp á annað stjórnsýslustig landsins haga sér með þessum hætti og taka þátt í slíku skuggabraski með sjálft landið gegn fyrri ákvörðun landsstjórnarinnar. Því spyr ég hæstv. innanríkisráðherra sem er líka ráðherra sveitarstjórnarmála og ber ábyrgð á þeim sem slíkum:

Hvert er álit hæstv. ráðherra á þessari gerð sveitarfélaganna á Norðausturlandi? Hvernig mun hæstv. ráðherra tala fyrir málinu í ríkisstjórn sem virðist, a.m.k. að hluta til, styðja slík vinnubrögð á hinu stjórnsýslustigi landsins? Mun ráðherra sveitarstjórnarmála hugsanlega taka fram fyrir hendurnar á sveitarfélögum á svæðinu og stöðva svona háttsemi sem í eðli sínu er mjög vafasöm og mundi aldrei líðast í nokkru einasta nágrannalandi sem kennir sig við siðmenntað samfélag?