140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

dómur yfir flóttamönnum á unglingsaldri.

[10:56]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þau grundvallarsjónarmið sem fram koma í máli hv. þingmanns. Það er rétt sem hann segir að ég sem innanríkisráðherra hafði strax samband við fangelsismálayfirvöld, barnaverndaryfirvöld og fulltrúa Útlendingastofnunar þegar fregnir bárust af þessu máli og niðurstaðan varð sú að fyrir snör handtök þessara aðila eru þessir tveir einstaklingar ekki vistaðir í fangelsi heldur annar á stofnun og hinn á einkaheimili. Það var gripið til ráðstafana af þessu tilefni.

Íslenskt ákæruvald sem í þessu tilfelli var lögreglustjóraembættið á Suðurnesjum hegðar sér samkvæmt lögum, reglum og hefðum. Ég tek undir með hv. þingmanni að viðkomandi regluverk og hefðir þurfum við að skoða, sérstaklega hvað þessi mál áhrærir. Við teljum að flóttamannasamningur hafi ekki verið brotinn með þessari aðgerð. Hins vegar er þetta mjög verðugt og nauðsynlegt viðfangsefni, þarna eru brotalamir sem við þurfum að taka til endurskoðunar.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu. Við eigum að standa eins vel að verki og nokkur kostur er, sérstaklega og ekki síst að standa vörð um hagsmuni unglinga sem hrekjast frá heimaslóð sinni með falsaða pappíra. Ég hef miklar efasemdir um að þeir eigi að sæta ákærumeðferð eins og hefðin hefur skapast fyrir hér en þetta eru mál sem við erum öll með til endurskoðunar í innanríkisráðuneytinu. Þetta mál hefur orðið okkur tilefni til að herða á því starfi.