140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

umsagnir um rammaáætlun.

[11:03]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er mikilvægt, eins og margsinnis hefur komið fram í þessum þingsal, að það er mikilvægt að ná sátt um nýtingu og verndun orkuauðlindanna okkar. Orkuauðlindirnar eru auðvitað verðmætar og þær munu gefa okkur vel í aðra hönd ef við förum varlega. Við þurfum að meta verðmætin við að nýta og eins verðmætin sem felast í því að vernda.

Ég leyfi mér að fullyrða að í skýrslunni sem hv. þingmaður vitnar í frá fyrirtækinu GAMMA eru ályktanir dregnar á mjög veikum grunni. GAMMA fullyrðir að framkvæmdir tefjist í fjögur ár og að Landsvirkjun geti selt orkuna strax frá þessum virkjunum. Það stangast hreinlega á við raunveruleikann. Í fyrsta lagi hefur ekki tekist að selja orkuna sem þó er í boði á Norðausturlandi og næg orka er til í kerfinu sem hægt er að nýta. Í öðru lagi virðist GAMMA ganga út frá því að virkjanirnar verði í bið í fjögur ár, að það hefði verið hægt að selja orkuna strax og framkvæmdir getað hafist strax. GAMMA gerir ekki grein fyrir því að við erum að tala um biðflokk, við erum að tala um að gera þarna ákveðnar rannsóknir og síðan verða virkjunarkostirnir flokkaðir annaðhvort í verndarflokk ef niðurstaðan verður þannig eða í nýtingarflokk.

Það er rangt af þessu annars ágæta fyrirtæki að gefa sér þær forsendur að ekkert muni gerast þarna næstu fjögur árin og einnig þær forsendur við núverandi ástand, (Forseti hringir.) þegar allir halda að sér höndum, að orkan seljist. Eins og menn þekkja hefur enginn orkusamningur verið gerður frá hruni.