140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

afbrigði um dagskrármál.

[11:11]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur haldið áfram þeim plagsið sínum að koma með mál, stór og smá, á síðasta degi inn í þingið. Hún sló reyndar öll met í vor, setti fram 54 mál á síðasta degi. Svo er eins og ríkisstjórninni hafi ekki fundist nóg að gert heldur ákveður hún núna að koma með enn fleiri mál til umfjöllunar í þinginu, vafalaust hin ágætustu mál, einhver þeirra, en þetta eru ólíðandi vinnubrögð. Þetta gerir það að verkum að það ástand hefur skapast í þinginu sem við öll þekkjum en vildum gjarnan forðast.

Við vitum líka að ýmis önnur mál hafa verið boðuð sem eiga eftir að koma fram, t.d. er lúta að skuldamálum heimilanna. Það hefur mjög verið boðað af tilteknum þingmönnum stjórnarliða þannig að við erum örugglega ekki búin að sjá fyrir endann á þessu. Við sjálfstæðismenn munum greiða fyrir því að þessi mál komist á dagskrá en þetta eru auðvitað ekki boðleg vinnubrögð sem hér er þó boðið upp á.