140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

lengd þingfundar.

[11:14]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að hæstv. forseti óskar eftir lengdum þingfundi er sú staða sem uppi er í þinginu og okkur er öllum ljós. Ástæður þessa eru, eins og ég rakti áðan, að ríkisstjórnin hefur ákveðið að vinna með þeim óskipulega og ólíðandi hætti að koma með öll sín mál meira og minna inn í þingið á síðustu dögum. 54 mál voru lögð fram á síðasta degi, fáeinum dögum áður stóru sjávarútvegsmálin og þannig má áfram telja. Þetta eru ekki góð vinnubrögð. Við þessar aðstæður er mjög mikilvægt að reyna að ná saman um það hvernig menn standa að málum í þinginu. Ekkert slíkt samkomulag hefur litið dagsins ljós og í ljósi þess tel ég enga ástæðu til að fara að lengja þingfundinn, hafa ómarkvissan þingfund í kvöld, og við sjálfstæðismenn munum þess vegna greiða atkvæði gegn því.