140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

256. mál
[11:16]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við greiðum atkvæði um nýtt endurgreiðslukerfi lyfja að fyrirmynd Dana og Færeyinga, kerfi sem tryggir að hver einstaklingur greiðir þrepaskipt lyfjakostnað sinn upp að tilteknu hámarki en þá taki við full greiðsluþátttaka sjúkratrygginga. Þetta er kerfi sem hlífir þeim sem þurfa að nota mest af lyfjum og þeim sem þurfa að nota dýrustu lyfin. Þetta er kerfi sem tryggir jafnræði óháð því hvaða sjúkdómar hrjá menn. Þetta er kerfi sem tryggir að börn, öryrkjar, aldraðir, atvinnuleitendur og ungmenni að 21 árs aldri greiði aldrei meira en tvo þriðju af lyfjakostnaði okkar hinna. Þetta er kerfi þar sem öll börn á sama fjölskyldunúmeri teljast eitt barn. Þetta er kerfi þar sem sýklalyf eru niðurgreidd eins og önnur lyf. Þetta er kerfi þar sem engu skiptir hvort lyfin eru gefin heima, á sjúkrahúsi eða hjúkrunarheimili.

Ég hvet þingmenn til að styðja þessa mikilvægu réttarbót.