140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

256. mál
[11:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp um greiðsluþátttöku sjúklinga í sjúkratryggingum sem er jákvætt skref, en ég tek undir með hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, það þarf að vinna þetta betur.

Fyrir utan lyf borgar fólk heilmikið í rannsóknir, heimsóknir til lækna, myndatökur, sjúkraflutninga o.s.frv. Fólk borgar úti um allt, líka þeir sem hafa fengið ókeypis lyf hingað til. Þetta kann að valda því að fólk sem hefur fengið ókeypis lyf og er að borga heilmikið fyrir utan það borgar núna hvort tveggja. Þar fyrir utan er lausnin með börnin ekki nógu góð vegna þess að hjón með þrjú börn geta lent í því að borga 175 þús. kr. á einum mánuði ef fjölskyldan lendir í illvígum sjúkdómi.

Ég skora á hv. nefnd að skoða þetta mál betur. Þetta er jákvætt en (Forseti hringir.) engu að síður mun ég sitja hjá þar til betri lausn fæst.