140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

256. mál
[11:20]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Haustið 2008 var í kjölfar hrunsins ákveðið að taka upp innlagnargjald á sjúkrahús á Íslandi. Það átti að taka 360 millj. kr. af sjúklingum með þeim hætti á árinu 2009. Þessi heimild var aldrei nýtt og samkvæmt upplýsingum frá velferðarráðuneyti er ekki á dagskrá núverandi ríkisstjórnar að nýta hana enda aðstæður allar aðrar. Þetta var líka mjög umdeild ákvörðun.

Með þessari breytingartillögu er lagt til að þessi heimild sem var sett inn í lög um sjúkratryggingar 2008 verði felld niður. Það þýðir að lagabreytingu þarf ef innleiða á innlagnargjald eða spítalaskatt í íslensk lög að nýju. Þetta er tillaga meiri hlutans og ég vildi gera þingheimi grein fyrir því og hvet til þess að þessi heimild verði felld úr lögunum. Hún hefur aldrei verið nýtt.