140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

málefni Íbúðalánasjóðs.

[11:44]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Íbúðalánasjóður lánar til almennings á kjörum sem tryggja að lífeyrissjóðunum sé tryggð viðunandi raunávöxtun. Ávöxtunarkrafan tekur lítið tillit til markaðsaðstæðna og almenns forsendubrests í samfélaginu. Þeir sem ekki ráða við forsendubrestinn missa íbúðina og sjóðurinn situr upp með verðlitlar eignir og það kallar á aukið framlag ríkissjóðs.

Þegar bankar bjóða hagstæðari kjör í formi lægri vaxta flýr fólk Íbúðalánasjóð. Fólkið sem flýr sjóðinn er það sem hefur efni á að greiða uppgreiðslu- og stimpilgjöldin, þ.e. tekjuhátt fólk. Uppgreiðsla lána hjá sjóðnum ógnar enn á ný rekstrargrundvelli sjóðsins. Ástæðan er sú að sjóðurinn getur ekki greitt upp íbúðabréfin sem lífeyrissjóðirnir eiga.

Margir lántakendur hafa fáa aðra búsetuvalkosti en að fjármagna húsnæðiskaup á kjörum sem þeir eiga erfitt með að standa undir. Þeir lenda því í greiðslu- og skuldavanda um leið og breytingar verða í efnahagslífinu eða á einkahögum þeirra. Ríkissjóður þarf þá að auka framlag sitt til sjóðsins til að koma í veg fyrir að útlánatapið lendi á lífeyrissjóðunum.

Frú forseti. Það á ekki að nota ríkissjóð til að niðurgreiða starfsemi lífeyrissjóðanna. Ef lífeyrissjóðirnir geta ekki starfað á markaðsforsendum verður að minnka umsvif þeirra og auka vægi gegnumstreymiskerfisins. Lausnin á vanda Íbúðalánasjóðs er ekki ESB-aðild frekar en á öðrum vanda. Fólk mun flýja háa vexti Íbúðalánasjóðs þegar við göngum inn í ESB og sjóðurinn verður gjaldþrota nema fólk verði neytt til þess að vera áfram í Íbúðalánasjóði með banni á uppgreiðslu. (Forseti hringir.) Þá er enginn ávinningur af ESB-aðild fyrir tekjulágt fólk.