140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

málefni Íbúðalánasjóðs.

[11:47]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Miðað við þau svör sem hæstv. ráðherra gaf mér er 1751 íbúð í eigu Íbúðalánasjóðs. Hér erum við með banka í eigu ríkisins, það er ekkert um það að ræða að neinir kröfuhafar taki þennan kostnað, þetta fer allt saman beint á ríkissjóð. Eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson benti á voru settir 33 milljarðar í sjóðinn og miðað við þessa umræðu hér lítur út fyrir að það þurfi meira og að það verði gert.

Í ofanálag erum við með þennan ríkisbanka, sem á að gera fólki auðveldara að eignast húsnæði, í þeirri stöðu að fólk er núna fast inni með verðtryggðu lánin sín. Það er augljóst af þessum hreyfingum, þ.e. þessum miklu uppgreiðslum, að fólk er hrætt við verðbólguskot. Fólk er hrætt við það að ef við einhvern tímann losnum við þessi gjaldeyrishöft, sem við gerum vonandi, verði hér verðbólguskot og það muni koma beint inn í lánin hjá því. Það er svolítið sérstakt að vera í þeirri stöðu að þeir sem eru í bankanum sem á að halda utan um og hjálpa fólki við að eignast íbúðir séu þeir sem hafi fengið minnstar leiðréttingar og séu hræddastir um stöðu sína.

Það er líka óþægilegt og ekki ásættanlegt að við getum ekki komið þessum íbúðum annaðhvort í verð eða leigu. Ég er þeirrar skoðunar, því meira sem ég skoða málið, að það sé óeðlileg verðmyndun á fasteignamarkaði í dag. Það ætti að vera mikil verðlækkun á fasteignum. Gjaldeyrishöftin og aðrir þættir gera það að verkum að við sjáum hér allt að því bólu í fasteignaverði sem er fullkomlega óeðlileg. Við verðum að taka á þessu máli og þar er (Forseti hringir.) lykilatriði að taka á málefnum Íbúðalánasjóðs í stóru samhengi.