140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

málefni Íbúðalánasjóðs.

[11:49]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mjög brýnt að fá hér umræðu um stöðu Íbúðalánasjóðs vegna þess að það er að verða breytt staða og verður fram undan á húsnæðismarkaði. Það þarf að horfa til eiginfjárstöðu og hlutfalls sjóðsins. Það þarf að horfa til framtíðar afskrifta varðandi þá stöðu sem er í skuldamálum þeirra sem eru með sín lán í Íbúðalánasjóði. Það þarf að horfa á þann þátt sem lýtur að uppgreiðsluvandanum sem sjóðurinn stendur frammi fyrir og við þurfum að horfa til þessarar breyttu framtíðarstöðu.

Auðvitað mun aðild að Evrópusambandinu, ef af verður, þýða breytta framtíðarstöðu eins og hv. þm. Lilja Mósesdóttir nefndi áðan. Auðvitað þýðir það tækifæri og ávinning fyrir þá tekjulægstu, en við verðum að horfa til þess að það verður að laga Íbúðalánasjóð að þeim aðstæðum sem við erum að horfa til í þeim efnum, rétt eins og aðrar stofnanir.

Mér finnst mikilvægt að ræða líka leigumarkaðinn sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi í spurningum sínum. Þar er orðin mjög sérstök staða. Ég nefndi það í þingræðu fyrir nokkrum dögum. Þar er að verða sú breyting að stærri og stærri hluti þjóðarinnar er að fara inn á leigumarkað sem er bara sjálfsagður og ágætur hlutur. Það verður hins vegar að vera staða til að mæta þeirri þörf og þeim kostnaði og réttlæti sem þarf að vera til staðar gagnvart annars vegar leigjendum og hins vegar kaupendum.

Staðan með íbúðir Íbúðalánasjóðs út af leigumarkaði er erfið en það er líka vegna þess að þessar íbúðir eru ekki endilega allar heppilegar sem leiguíbúðir. Það þarf að fara með þær inn á sölumarkað þegar losnar um í þeim efnum og það verður fyrr en seinna.

Það sem skiptir mestu núna er að taka á og jafna stöðu og hlut þeirra sem eru á húsnæðismarkaði, hvort heldur þeir eru eigendur eða leigjendur. Það gerum við með upptöku nýs húsnæðisbótakerfis sem verið er að vinna. Þar er breið samstaða allra aðila sem eru að vinna að því máli og þær tillögur verða kynntar á næstu dögum. Þær munu hér móta ákveðna nýja, skýra og (Forseti hringir.) réttláta framtíðarsýn í þeim efnum.