140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

málefni Íbúðalánasjóðs.

[11:59]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu og þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í henni. Jafnframt þakka ég hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann komst yfir að veita í sinni fyrri ræðu. Ég tel einsýnt að hv. fjárlaganefnd muni kalla forsvarsmenn Íbúðalánasjóðs á sinn fund til að fara yfir stöðuna nákvæmlega, hvernig hún er gagnvart þeirri fjárþörf sem hugsanlega er á árinu 2012.

Mig langar örstutt að halda áfram þar sem ég náði ekki að klára og hæstv. ráðherra heldur ekki sín svör vegna tímaskorts. Hvernig getum við brugðist við þeirri stöðu sem klárlega er núna gagnvart leiguhúsnæði? Við vitum að Íbúðalánasjóður er settur undir samkeppnissjónarmið. Eins og kom fram í svari hæstv. ráðherra á hann að vera með 30% af eignum sínum á markaðnum. Þá verðum við líka að ræða það og hvernig við getum brugðist við því að leigumarkaðurinn er mjög mismunandi eftir sveitarfélögum. Þetta ákvæði getur átt við sum sveitarfélög en alls ekki önnur. Eins og ég nefndi til að mynda þar sem ég þekki til, í nokkrum sveitarfélögum úti á landsbyggðinni, er staðan einmitt sú að eiginlega einu virku aðilarnir á leigumarkaði eru Íbúðalánasjóður og sveitarfélögin sjálf. Það er dapurlegt að sú staða skuli vera uppi í dag að Íbúðalánasjóður eigi íbúðir sem standa auðar sem hinn samkeppnisaðilinn í skilgreiningu samkeppnislaganna vill leigja af sjóðnum. Auðvitað tapa allir á þessu, hvort heldur eru skattgreiðendur sem þurfa að greiða framlög í sjóðinn eða samfélagið og að fólk getur ekki flutt til þess að fá atvinnu. Húsin standa auð og það er óþolandi ástand.

Því hvet ég hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir því að boða saman Íbúðalánasjóð, Samkeppniseftirlitið, sveitarfélögin og reyna að útfæra reglur, hvort heldur er á landshlutavísu eða bara meðal einstakra sveitarfélaga, þannig að forsvarsmenn Íbúðalánasjóðs séu alveg öruggir um að þeir séu ekki að fara á svig við Samkeppniseftirlitið. Þeir verða að fá leiðbeiningar um hvernig megi bregðast við vandamálunum (Forseti hringir.) því að kerfið má ekki vera það þunglamalegt að ekki sé hægt að bregðast við ákveðnum hlutum sem allir eru sammála um.