140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

málefni Íbúðalánasjóðs.

[12:02]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Kærar þakkir fyrir þessa umræðu og gagnlegar ábendingar. Það er augljóst að að minnsta kosti þrír flokkar hér eru vinir Íbúðalánasjóðs og vilja honum allt hið besta. Það var þó forvitnilegt að heyra fluttar tillögur um að hann yrði gerður að meiri bankastarfsemi, hækka ætti laun og annað slíkt sem ég hélt að væri ekki forgangsverkefni. En það komu ágætar ábendingar um að það hafi verið ákveðin vandkvæði við framkvæmdir hjá Íbúðalánasjóði varðandi endurgreiðslu á lánum eins og HFF-bréfunum. Það eru hlutir sem menn þurfa að taka á og er verið að vinna að lausnum á.

Hér var rætt um 110%-leiðina og það er ástæða til að taka fram að hún fór nákvæmlega eins og þingið setti lögin um hana. Það varð töluverð umræða um hversu langt ætti að ganga og þingið breytti frumvörpunum þar og tók afstöðu. Íbúðalánasjóður hefur verið bundinn af þeim lögum og ekki hefur verið flutt um það breytingartillaga að breyta þeim.

Það er líka ástæða til að taka undir það sem hér hefur komið fram, að Íbúðalánasjóður er sérstakur sjóður að því leyti að það er ríkisábyrgð á honum. Allar þær breytingar sem þar eru og þau töp sem þar verða eru fjármögnuð af ríkissjóði og það takmarkar auðvitað möguleikann á því hvað hægt er að gera.

Varðandi óverðtryggðu lánin hjá Íbúðalánasjóði liggur fyrir að komin er lagaheimild frá þinginu til að taka upp óverðtryggð lán og er unnið að því á vegum Íbúðalánasjóðs. Það er líka ástæða til að leiðrétta það sem hér kom fram hjá hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, það er búið að leggja fram skýrslu og heildstæða stefnu í húsnæðismálum og verið að vinna þar að einstökum þáttum. Húsnæðisbæturnar eru einn hluti af því.

Ég get tekið undir með hv. þingmanni og málshefjanda, sem ég þakka fyrir að taka þetta mál upp, að það þarf að leysa úr þessum samkeppnisþáttum. Það þarf að taka upp samráð við Samkeppniseftirlitið. Þessi 30% regla getur ekki endilega átt við alls staðar, þ.e. að Íbúðalánasjóður fari ekki yfir það mark. Það verður líka að taka fram að Íbúðalánasjóður hefur farið í mikla greiningarvinnu um leigumarkaðinn og safnað upplýsingum sem hægt er að byggja á. Íbúðalánasjóður hefur ákveðið líka að setja 70 nýjar fasteignir inn á markaðinn núna í maímánuði, en auðvitað verða menn að gæta sín að „dömpa“ ekki markaðinn (Forseti hringir.) vegna þess að það mun líka skemma fyrir félagslega ef menn rýra húseignir langt umfram það sem eðlilegt er á öðrum svæðum eða hvar sem er á landinu.