140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:05]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Við hefjum nú aftur umræðuna um Stjórnarráðið og skipan þess. Í fyrstu ræðu minni um þetta mál ræddi ég þá vinnu sem farið var í í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og þau álitamál sem upp komu í fyrri umræðu um þær breytingar sem hér er verið að leggja til og hversu eðlisólíkar tillögurnar eru hvað varðar hversu mikið þær hafa verið ræddar í þinginu í aðdraganda þessarar tillögu.

Það þarf ekkert að eyða mörgum orðum í það að þegar litið er til skipan atvinnuvegaráðuneytis hefur það verið rætt verulega mikið á Alþingi á undanförnum missirum. Fjöldamargar umsagnir liggja fyrir um það efni. Það eru skiptar skoðanir um það hvort stofna skuli slíkt ráðuneyti, en í sjálfu sér má segja að sú umræða liggi bara fyrir að því leyti.

Öðru máli gegnir í mínum huga þegar kemur að breytingum hvað varðar efnahagsmál. Þar finnst mér töluvert mörgum spurningum vera ósvarað. Mig langar aðeins af því tilefni að velta því upp, því að það hefur komið fram í umræðunni, hversu mikið Alþingi eigi að taka afstöðu til þess hvernig skipan Stjórnarráðsins er, hvort eðlilegt sé að þeir sem ráði ríkjum í Stjórnarráðinu á hverjum tíma skipi þeim verkefnum sem þar eru undir.

Þá finnst mér eiginlega tvennt skipta máli.

Í fyrsta lagi, ef það er skoðun ríkisstjórnar og þeirra sem hæst ráða í Stjórnarráðinu að nauðsynlegt sé að gera breytingar á Stjórnarráðinu, er að sjálfsögðu eðlilegt að það sé gert í upphafi kjörtímabils þannig að þær breytingar sem þar eru lagðar til komist til framkvæmda og reynsla komi á þær í tíð þeirrar ríkisstjórnar. Það skýtur því skökku við að svo umfangsmiklar breytingar séu í farvatninu undir lok kjörtímabils, sérstaklega af því við vitum að þær munu ekki koma að fullu til framkvæmda fyrr en undir eða á síðustu metrum kjörtímabilsins.

Í öðru lagi, hvort það sé hluti af verkefnum Alþingis að hafa skoðanir á því hvernig þessum grundvallarþáttum sé háttað í Stjórnarráðinu, hvort það skipti máli fyrir formfestu í stjórnsýslunni að Alþingi taki umræðu um það og ræði það í þessum sölum hvernig þeim málum sé háttað.

Hér er verið að tala um skipan efnahagsmála. Hér verið að tala um að leggja niður efnahagsráðuneytið, sem er reyndar nýstofnað og í mínum huga ekki komin fullnægjandi reynsla á það hvort heppilegt hafi verið að stofna það ráðuneyti. Ég vil nú segja það hér svo að því sé til haga haldið að ég gerði sjálf verulegar athugasemdir við að það ráðuneyti yrði stofnað og taldi reyndar að heppilegra væri fyrir skipan efnahagsmála að forsætisráðherrann hefði beint með það að gera. Niðurstaðan varð hins vegar sú á grundvelli samstarfssamnings ríkisstjórnarinnar að fara í stofnun þessa ráðuneytis.

Það er svo stutt um liðið frá því þetta var gert að það vekur auðvitað furðu að niðurstaða sömu ríkisstjórnar, án þess að það hafi verið rætt eða breyting hafi orðið í samstarfsyfirlýsingu hennar, hafi orðið sú að leggja eigi það ráðuneyti niður og fara með þessi mikilvægu efnahagsmál aftur á milli ráðuneyta. Þetta dregur að sjálfsögðu úr formfestu í stjórnsýslunni. Mér finnst það vera gagnrýnivert. Ég lít á það sem eitt af hlutverkum Alþingis að hafa slíkt eftirlit með framkvæmdarvaldinu að þegar menn taka slíkar ákvarðanir þá séu a.m.k. færð fyrir því veigamikil rök og þau lögð á borðið og þau rædd.

Þannig háttar nú til að skammt er síðan sú skýrsla sem stuttlega hefur verið komið inn á í þessari umræðu, um framtíðarskipan fjármálamarkaða, var kynnt hér á landi og gefin út á vettvangi efnahags- og viðskiptaráðuneytisins. Einn höfundur þeirrar skýrslu er Kaarlo Jännäri sem áður veitti ríkisstjórninni ráðgjöf þegar kom að skipan þessara mála. Nú liggur fyrir að á grundvelli þessarar skýrslu hefur verið stofnaður annar starfshópur og Kaarlo Jännäri situr einmitt í þeim starfshópi. Það er augljóst af þeim fréttum sem borist hafa af vinnu þess hóps að þar er meðal annars verið að velta vöngum yfir skipan fjármálaeftirlits, hvernig haga skuli fjármálaeftirliti, hvernig best sé að koma því fyrir í stjórnsýslunni og hvernig hægt sé að auka skilvirkni í eftirliti með fjármálamörkuðum. Hefði ekki verið heppilegt, virðulegi forseti, að bíða eftir niðurstöðum þess starfshóps áður en þessi tillaga var lögð fram? Hefði ekki verið heppilegt fyrir t.d. hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að kynna sér hvaða hugmyndir eru á ferðinni í þeim starfshóp? Það hefði kannski verið þess virði að halda eins og einn fund þótt ekki væri meira og hitta þá sérfræðinga sem við höfum kallað til ráðgjafar við okkur og spyrja þá að því hvað þeim finnst og hvað þeir telji að við getum lært af þeim breytingum sem þegar hafa verið gerðar og hvort ástæða sé til að fara með Fjármálaeftirlitið undir atvinnuvegaráðuneyti?

Í því sambandi held ég að rétt sé að hafa í huga, því að það hefur verið nefnt sem ein röksemd með því að Fjármálaeftirlitið skuli fara undir atvinnuvegaráðuneyti, að lögð hefur verið áhersla á það að fjármálamarkaður sé í raun og veru grundvallaratvinnugrein í landinu.

Öll umræða um stofnun atvinnuvegaráðuneytis hefur hins vegar verið á allt öðrum grunni. Þar hefur fyrst og fremst verið lagt til og röksemdir hafa verið í þá átt að nauðsynlegt sé að búa til ráðuneyti sem sé með grundvallarauðlindir þjóðarinnar undir. Það liggur reyndar ekki fyrir og engin svör hafa fengist um það hvað eigi að verða um þá rannsóknarstofnun sem þar er hvað mikilvægust, Hafrannsóknastofnun, en látum það liggja milli hluta í þessari tilteknu röksemdafærslu. En hvernig stendur á því að Fjármálaeftirlitið er skyndilega komið þarna undir? Hvernig stendur á því að menn sjá rök fyrir því að Fjármálaeftirlitið eigi að vera þarna? Það kann að vera að hægt sé að tína til einhver rök fyrir því. Þau hafa ekki verið lögð á borðið. Það hefur ekki verið rætt í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, þvert á móti kom fram hjá fulltrúa Seðlabanka að þeir væru á móti þessari breytingu. Ég tek hins vegar eftir því að í meirihlutaáliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er ekkert um það talað, það er hreinlega ekki nefnt, að þessi grundvallarstofnun landsins, Seðlabanki Íslands, telji ekki hyggilegt að færa Fjármálaeftirlitið undir atvinnuvegaráðuneyti. Mér finnst þetta skipta gríðarlega miklu máli.

Svo þegar kemur að formfestu í stjórnsýslunni, virðulegi forseti, þá finnst mér undarlegt svo ekki sé meira sagt að nú standi til að færa Seðlabanka Íslands undir þriðja ráðuneytið á þessu kjörtímabili. Fyrst var hann undir forsætisráðuneytinu, svo fór hann undir efnahagsráðuneytið og nú á hann að fara undir fjármálaráðuneytið. Í niðurstöðu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, þegar nefnt er að það kunni að vera óheppilegt að Seðlabankinn sé undir ráðuneyti sem fer með eignarhluta í fjármálafyrirtækjum, segir að það sé kannski ástæða til að hvetja menn til að fara varlega. Engin raunveruleg skoðun er sett fram af hálfu nefndarinnar á því hvort þetta sé skynsamlegt eða ekki. Meiri hluti nefndarinnar gerir enga tilraun til að rökstyðja það hvers vegna er heppilegt fyrir stjórnsýsluna að haga þessu svona.

Ég undra mig mjög á þessu öllu saman. Ég hefði haldið að langskynsamlegast væri og reyndar það eina eðlilega að rýna núna þær breytingar sem þegar hafa verið gerðar, velta vöngum yfir hvort þær hafi skilað þeim árangri sem stefnt var að, hvort ástæða sé til að efla efnahags- og viðskiptaráðuneytið eða hvort gera þurfi aðrar breytingar. Svo hitt, að setja þær röksemdir á borðið hvernig best sé að haga eftirliti með fjármálamarkaði.

Enn og aftur, af því það fást engin svör við því í þessari umræðu, held ég að það skipti mjög miklu máli að menn velti því fyrir sér hvaða samspil er á milli Seðlabanka og Fjármálaeftirlits hvað þetta varðar. Engin svör fást við því. Engin svör fást við nokkrum sköpuðum hlut í þessu máli.

Upp úr stendur að það virðist vera skoðun meiri hlutans að það komi Alþingi ekki við hvernig grundvallarskipulagi er háttað í Stjórnarráðinu. Ég held að þar gefi Alþingi frá sér mikilvægt eftirlitshlutverk með framkvæmdarvaldinu. Að sjálfsögðu kemur það Alþingi við hvar grundvallarstofnanir á sviði rannsókna í sjávarútvegsmálum eru vistaðar og einnig hvernig farið er með sjálfan Seðlabanka Íslands.