140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:21]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í huga hæstv. forsætisráðherra er eðlilegt að öll mál séu í ágreiningi. Í huga hæstv. forsætisráðherra virðist það líka vera eðlilegt að tilteknir fyrrverandi ráðherrar og þingmenn í stjórnarliði ríkisstjórnarflokkanna styðji ekki mál. Það er hin eðlilega framganga máls í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að stjórnarflokkarnir standi ekki að þeim málum sem hæstv. forsætisráðherra leggur fram. Það er hið nýja vinnufyrirkomulag sem hæstv. forsætisráðherra hefur kynnt til sögunnar — öll mál skuli vera í ágreiningi, alveg sama hvaða mál það eru. Jafnvel þegar hægt er að ná samkomulagi þurfa mál að vera í ágreiningi. Þetta hefur verið mikið áhyggjuefni allt frá því þessi ríkisstjórn tók við völdum. Því miður er ekkert lát á því. Það á ekki bara við um þetta mál um Stjórnarráðið, það á líka við um önnur veigamikil mál.

Þessu virðist síðan fylgja í huga hæstv. forsætisráðherra að ekki megi ræða þau ágreiningsmál sem hún leggur á borð fyrir Alþingi. Það á bara að leggja málin fram í ágreiningi innan ríkisstjórnar, innan þingflokka. Síðan, eins og ég segi, er það orðið nýtt hlutverk Alþingis að kanna það í atkvæðagreiðslu hverjir það eru sem styðja ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra. Það er bara eitthvað sem við athugum í atkvæðagreiðslu. Það veit enginn fyrir fram hverjir það eru sem standa að baki málum.

Við vitum í þessu tilviki að tveir fyrrverandi ráðherrar styðja ekki málið og það eru menn sem hafa töluvert mikla þekkingu á viðkomandi málaflokkum. Það skiptir náttúrlega ekki nokkru einasta máli. Það skiptir engu máli, af því þá er það bara verkefni Alþingis í atkvæðagreiðslu að kanna hvort ekki fáist aðrir til að lyfta undir ríkisstjórnina í þessum málum.