140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:31]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Þegar við ræðum þessa tillögu til þingsályktunar og skoðum nefndarálit meiri hlutans dregst upp sú mynd að hér séu á ferðinni hugmyndir sem hafi verið töluvert ræddar á fyrri stigum á þessu kjörtímabili. Vissulega hafa verið gerðar breytingar á Stjórnarráðinu áður á kjörtímabilinu. Sumt af því sem nú er verið að leggja til varðar hugmyndir sem áður hafa komið fram en hafa farið í nýjan farveg, þeim var frestað og málin skoðuð nánar, en engu að síður telur minni hluti nefndarinnar, og ég tek undir með honum, að einhverra hluta vegna hafi ekki tekist í þeirri vinnu sem átt hefur sér stað í millitíðinni að skýra nákvæmlega tilganginn með þessum breytingum.

Mér finnst nokkuð mikilvægt að við veltum því fyrir okkur þegar gerðar eru jafnmiklar breytingar á Stjórnarráðinu og hér er lagt til og sérstaklega ef við skoðum það í heildarsamhengi hlutanna, þ.e. í samhengi við það sem áður hefur gerst, að hér lagt upp með það að við förum niður í átta ráðuneyti. Við þekkjum það að við höfum oft verið með tólf ráðuneyti þannig að heilt yfir er verið að leggja hér til af þessari ríkisstjórn að við tökum einn þriðja ráðuneytanna og fellum saman við önnur og með því fækkar ráðherrum úr tólf í átta.

Það hefur ekki komið skýrt fram í þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað hvort hugmyndin sé sú að það komi aðstoðarráðherrar eða aukaráðherrar inn í einstök ráðuneyti. Það er búið að opna fyrir þann möguleika í lögunum, en það hefur ekki komið fram hjá forsætisráðherra eða í vinnu nefndarinnar hvort eitthvað slíkt standi fyrir dyrum. Í öllu falli er ljóst að við erum með miklu stærri einingar í stjórnkerfinu en við höfum lengst af haft með því að ráðuneytin eru orðin átta en voru áður tólf.

Það þýðir líka að það þjappast vald til ráðherranna sem fara þá fyrir viðkomandi ráðuneytum. Það þjappast vald undir þá. Líkt og bent er á í nefndarálitum sem fylgja málinu inn í þessa umræðu hafa sumir lýst áhyggjum af því að það kunni að vera erfiðara að ná eyrum ráðherrans, hann kunni að vera önnum kafinn í að sinna einum málaflokki þegar athygli hans er krafist vegna hins málaflokksins. Við þekkjum dæmi þess í þinginu að sá sem fer með sjávarútvegs-, landbúnaðar- og eftir atvikum einhver önnur atvinnumál eins og lagt er upp með hér, iðnaðarmálin, getur verið upptekinn í útlöndum þegar nærveru hans er krafist vegna annarra mála hér heima. Þess eru nýleg dæmi á þinginu.

Ég sakna þess að þessi þáttur sé ekki ræddur sérstaklega, þá ekki síst í samhengi við umræðuna um að gera skýrari skil á milli þings og framkvæmdarvalds, þ.e. ríkisstjórnarinnar. Í þeirri vinnu sem stendur yfir við endurskoðun stjórnarskrárinnar eru nefnilega uppi hugmyndir um að þegar þingmenn verða ráðherrar láti þeir af störfum sem þingmenn og flytjist alfarið inn í ráðuneytin. Mér finnst að það ætti að vera hluti af þeirri umræðu sem á sér stað hér, hvort það er hugmyndafræðin á bak við það sem menn eru hér að kynna til sögunnar með þessari miklu fækkun ráðuneyta.

Ég vil að það komi líka skýrt fram að ég er hlynntur hagræðingaraðgerðum í stjórnkerfinu hjá okkur. Ég tel að við eigum að halda áfram því sem unnið hefur verið að undanfarin ár, að sameina stofnanir sem eru með starfsemi sem getur farið saman undir einni yfirstjórn. Við höfum nokkur dæmi um það. Matís er tiltölulega nýlegt dæmi um stofnun sem komið var á fót með slíkum hætti. Núverandi ríkisstjórn hefur líka átt sinn þátt í að sameina stofnanir. Hún hefur reyndar líka komið á fót nýjum stofnunum, nýjum embættum. Mér verður hugsað til umboðsmanns skuldara þar sem rekstrarkostnaðurinn á ári er kominn upp í 1 milljarð, stofnun sem áður var ekki til. Það fer 1 milljarður í að sinna þeim verkefnum sem þar eru — á ári.

Ég er hlynntur hagræðingaraðgerðum í stjórnkerfinu. Að því leyti til get ég tekið undir það markmið þessarar þingsályktunartillögu að ná fram aukinni hagræðingu, en mér finnst að þegar menn tefla fram slíkum hugmyndum þurfi jafnframt að fylgja heildarhugmynd, að hún þurfi að koma upp á borðið. Í þessu tilviki finnst mér allt of mörg stór göt í málflutningi þeirra sem tala fyrir málinu. Mér finnst til dæmis óásættanlegt að ekki sé gerð grein fyrir því hvar einstakar, stórar stofnanir eiga að vistast í þessu breytta stjórnkerfi. Mér finnst það stórmál. Það er mjög óljóst í hinu stækkaða umhverfisráðuneyti sem fer jafnframt með auðlindamál hvaða stofnanir eiga þar að heyra undir, hver skiptingin verður á milli atvinnuvegaráðuneytisins og þess ráðuneytis hvað einstakar stofnanir áhrærir. Það er stórmál í sjálfu sér. Það getur haft mjög miklar pólitískar afleiðingar undir hvaða ráðuneyti slíkar stofnanir heyra.

Þetta eru atriði sem ég sakna að hafi ekki komið skýrar fram hér og eins hitt sem ég hef aðeins komið inn á, tengingin við hugmyndir um að gera skýrari aðskilnað á milli þings og framkvæmdarvalds. Mér finnst reyndar að sú umræða sé mjög skammt á veg komin. Ég bíð þess að við tökum alvöruumræðu á Alþingi um stjórnarskrána, hugmyndir á borð við þá hvort skynsamlegt sé að gera skýrari aðskilnað á milli þessara höfuðþátta stjórnskipunar okkar. Engu að síður leitar á mann sú hugsun eftir að ráðherra er kominn í jafnstór ráðuneyti og verið er að skapa hér hvort það sé skynsamlegt að hann sé áfram með stöðu þingmanns og hvort hann geti í raun og veru sinnt öllum þeim verkefnum sem á hann eru lögð með því.

Það væri töluvert mikil breyting. Ég tel að ef að henni verði unnið þurfi það í sjálfu sér ekki að setja þingræðisregluna á nokkurn hátt í uppnám, þetta væri miklu meira praktískt atriði. Ef af þessu yrði sé ég fyrir mér að stjórnarmeirihlutinn mundi styrkjast við þetta, ráðherrann fengi aukið svigrúm til að sinna sínum verkefnum, væri laus undan skyldum, t.d. að greiða atkvæði í einhverjum óskyldum málum á þinginu, málum sem hann hefði ekki lagt fram, reyndar einnig í eigin málum. Á móti kæmi á þingið hópur nýrra þingmanna sem allur væri starfandi fyrir stjórnarmeirihlutann ásamt með ráðherrunum. Það má alveg halda því fram að verði einhvern tímann af því að þessi breyting verði gerð verði hún á kostnað stjórnarandstöðunnar á þingi.

Ég hef ekki fyrir mitt leyti komist að neinni niðurstöðu um það hvort þetta væri skynsamlegt. Ég hef frekar haft efasemdir um það, m.a. af þeirri ástæðu að það væri svo mjög verið að styrkja stjórnarmeirihlutann. Mér hefði þótt eðlilegt að þetta væri að minnsta kosti rætt hér í tengslum við þá hugmynd að fækka mjög, um einn þriðja, ráðuneytunum í Stjórnarráðinu, skapa svona miklu stærri einingar og leggja þannig um leið miklu meiri skyldur á herðar einstökum ráðherrum til þess að þurfa að setja sig inn í ólíka málaflokka.

Ég nefndi það hér fyrir nokkrum dögum í minni fyrri ræðu í þessari umræðu að við hljótum öll að sjá hversu miklu máli það hefur skipt fyrir einstakar atvinnugreinar að hafa sterka ráðherra sem málsvara fyrir viðkomandi greinar eins og öflugur landbúnaðarráðherra getur skipt landbúnaðinn í málinu gríðarlega miklu máli. Hið sama gildir fyrir öflugan sjávarútvegsráðherra og öflugan iðnaðarráðherra. En mun einn öflugur atvinnuvegaráðherra geta gegnt jafnmikilvægu og kraftmiklu hlutverki fyrir þessa þrjá þætti alla saman í einu? Það er nefnilega svolítið stór spurning.