140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:42]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var um margt málefnalegri en margar af þeim fjölda ræðna sem hafa verið haldnar í tilefni af þessari þingsályktunartillögu.

Þetta er ekki fyrsta sinn sem hér er verið að breyta stjórnarráðslögunum og fækka ráðuneytum. Það var líka gert 2007, í tíð Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, þar sem sameinað voru sjávarútvegsráðuneytið og landbúnaðarráðuneytið. Þar var félagsmálaráðuneytinu breytt og tryggingahluta í heilbrigðiskerfinu bætt við. Þá var breytt heiti ráðuneytisins í félags- og tryggingamálaráðuneyti. Hagstofunni var líka breytt úr ráðuneyti í sjálfstæða stofnun. Reyndar var á þeim tíma iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti skipt upp þótt ekki þyrfti lagabreytingu þar um.

Það tók samtals þrjár klukkustundir að ræða það mál frá upphafi til enda. Nú höfum við talað hér í yfir 30 tíma og sér ekki fyrir endann á mælendaskránni. Hvað er það sem réttlætir það að tala um þetta mál í 30–40 tíma, eða hver endirinn verður, ef það sem var á þinginu 2007 þegar þinginu dugðu þrjár klukkustundir til að ræða verulega stórar og miklar breytingar á ráðuneytum?

Líka er alveg ljóst, þannig að þingmaðurinn viti það, að þá þurfti að fara í stofnanabreytingar eins og hugsanlegt er núna. Við vitum það ekki. Þá var bara boðað að það yrði gert á hausti komanda og að sjálfsögðu í samráði við þingið og lagt fram lagafrumvarp um það sem að sjálfsögðu verður gert í þessu tilviki ef þetta kallar á einhverjar stofnanabreytingar.

Hvernig sér þingmaðurinn fyrir sér að það sé svona mikill munur á þessum breytingum að það kalli á allt þetta málþóf í marga tugi klukkustunda á móti því sem var á árinu 2007 þegar þinginu dugðu þrjár klukkustundir fyrir mjög stórar breytingar á Stjórnarráðinu?