140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:44]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel í fyrsta lagi að við hefðum getað komist hjá langri umræðu um þetta mál hér ef við hefðum borið gæfu til að vinna málið til enda í nefnd. Ég hygg að ekki hefðu komið fram jafnmargar efnislegar spurningar um málið hvað snertir einstakar stofnanir og hvað standi fyrir dyrum í Stjórnarráðinu ef menn hefðu gefið sér tíma til að vinna málið lengur en í tvo daga eða þrjá í nefndinni eins og gert var. Því var til dæmis fálega tekið að senda málið út til umsagnar og gefa því nokkra daga í nefndinni. Það held ég að sé eitt grundvallaratriðið.

Síðan eru breytingarnar sem vísað er til hér um margt mjög ólíkar því sem verið er að gera með tillögunni sem við erum að ræða, þ.e. þegar menn sameina í eitt ráðuneyti sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál erum við engu að síður með sjávarútvegsráðuneyti og landbúnaðarráðuneyti. Í þessu máli er verið að leggja þau ráðuneyti niður og stofna nýtt ráðuneyti sem ekki var áður hægt að gera án þess að koma inn í þingið með lagabreytingu.

Hér er sem sagt verið að stofna frá grunni ný ráðuneyti þar sem gömlu ráðuneytin verða lögð niður og nýtt ráðuneyti tekur við. Það er ekki alveg sanngjarnt að leggja þetta tvennt að jöfnu þó að það sé hárrétt hjá hæstv. forsætisráðherra að í gegnum tíðina hafi menn oft valið að fella saman málaflokka undir einn ráðherra. Þá hafa ráðuneytaheitin haldið sér og það hefur verið mjög auðvelt að hverfa til baka frá þeirri breytingu sýndist mönnum svo í framhaldinu.