140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:49]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að við þurfum ekki að deila um það að lögin gera ráð fyrir því að tillagan fái þinglega meðferð eins og hún er að gera núna. Það er hins vegar ekki annað hægt en að taka undir með hæstv. forsætisráðherra um að umræðan hefur staðið þó nokkuð lengi. Ég segi fullum fetum að það sé vegna þess hvernig málið er lagt hérna fyrir þingið, óskýrt um marga þætti, og eins líka að nefndin skyldi ekki bera gæfu til þess að hlusta eftir sjónarmiðum nefndarmanna um að fá umsagnir og frekari vinnu við málið.

Mér finnst til dæmis einkennilegt að ríkisstjórnin skuli setja þetta mál í þann forgang sem hún gerir hérna á þessu þingi. Það er auðvitað val stjórnarinnar að hafa málið á dagskrá stanslaust á meðan önnur mál bíða. Það er greinilega krafa meiri hlutans að þetta mál umfram önnur þurfi að vera á dagskrá. Mér finnst það dálítið einkennilegt í því ljósi að svo margt virðist enn óútfært í þessari hugmynd, þ.e. það er dálítið einkennilegt að upplifa jafnmikla áherslu á þetta mál og raun ber vitni þegar menn hafa ekki gert það almennilega upp við sig hvað síðan tekur við.

Þá vil ég sérstaklega nefna þetta með undirstofnanir ráðuneytanna, hvar þeim verður komið fyrir og verkaskiptinguna milli einstakra ráðuneyta. Ég ætla jafnframt að taka undir með þeim sem nefna efnahagsráðuneytið sérstaklega til sögunnar og þá hringekju sem það ráðuneyti hefur lent í í þessari stjórnartíð.

Umræðan hefur sannarlega staðið lengi. Mér finnst að málatilbúnaðurinn og efni málsins hafi svo sem dálítið kallað á það, en þessari umræðu hlýtur nú að fara að ljúka og við vonandi að komast í önnur mál, enda fáir þingdagar eftir. Við erum líka að tala um stórt mál, fjölda ráðuneyta. Við erum að tala um ákveðin valdahlutföll um leið á milli þings og framkvæmdarvalds. Það er margt sem (Forseti hringir.) þingmál um þetta efni kallar á að rætt sé.