140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

umgjörð ríkisfjármála.

[13:32]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Það er full ástæða til að efna til umræðu um umgjörð ríkisfjármála hér í þinginu. Í kjölfar hruns íslensku bankanna myndaðist grafalvarleg staða í ríkisfjármálum, skuldirnar jukust og tekjurnar drógust saman. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur lyft grettistaki í ríkisfjármálum svo eftir hefur verið tekið. Þrátt fyrir góðan árangur þarf að tryggja að ekki verði slakað á kröfunum því að ekki má mikið út af bera svo að ríkissjóður lendi í vítahring skulda.

Til að tryggja aga og langtímahugsun í ríkisfjármálum þarf að endurskilgreina umgjörðina. Í því felst ekki bara ný lagasetning og nýjar reglugerðir heldur einnig breytt viðhorf og hugsun um ríkisfjármál, sérstaklega hjá stjórnmálamönnum en einnig hjá starfsmönnum ríkisins sem og í umfjöllun fjölmiðla. Það er hlutverk stjórnmálamanna að tryggja almannahagsmuni og sjálfbær ríkisfjármál falla svo sannarlega í þann flokk. Til að skapa heilbrigða umgjörð um ríkisfjármál á Íslandi þurfa framkvæmdar- og löggjafarvaldið að vinna samhent að sama markmiði.

Í hinni vinsælu þingsályktun um skipan Stjórnarráðsins sem nú er til umræðu í þinginu er gerð tillaga um skipan efnahagsráðs sem á að leggja sjálfstætt og hlutlaust mat á efnahagsáætlanir og hagstjórn. Slíkt ráð er að mínu mati mjög mikilvægt til að auka agann og stuðla að upplýstri opinberri umræðu um mikilvægi ríkisfjármála og ábyrgra stjórnmálamanna. Mikil vinna fer nú fram á vegum fjármálaráðherra til að endurbæta fjárlagaferlið. Lykilatriði í þeirri viðleitni eru ný lög um fjárreiður ríkisins. Núgildandi lög eru frá árinu 1997 og þó að þau hafi verið mjög til bóta á sínum tíma er tímabært að endurskoða þau frá grunni.

Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvernig vinnan gangi og hver séu helstu markmið frumvarpsins. Á undanförnum árum hafa fjármálareglur verið mjög til umræðu í sambandi við opinber fjármál bæði hér og erlendis. Víða erlendis hafa ríkisstjórnir samþykkt ýmiss konar reglur varðandi afkomu ríkissjóðs og skuldastig sem hefur komið sér vel í núverandi niðursveiflu. Þar má nefna Svíþjóð sem dæmi en fjárlaganefnd hefur kynnt sér umgjörð ríkisfjármála þar í landi sérstaklega. Alþingi hefur nýlega samþykkt ný sveitarstjórnarlög með fjármálareglum um afkomu og hlutfall skulda af tekjum. Því er eðlilegt, frú forseti, að ég spyrji hæstv. fjármálaráðherra hvort komið hafi til tals að lögfesta fjármálareglur af þessu tagi fyrir ríkissjóð.

Á þessu kjörtímabili hefur þingið stigið mörg mikilvæg skref til að styrkja fjárstjórnarvald sitt. Þingsköpum var breytt og samkvæmt þeim hefur eftirlitshlutverk fjárlaganefndar verið eflt og frá og með árinu 2013 á fjármálaráðherra að leggja fram rammafjárlög á Alþingi í apríl ár hvert. Hugsunin með því er að ríkisfjármálin séu hugsuð til lengri tíma en eins árs í senn en það eykur skilning á að ákvörðun sem er tekin í dag — nú eða ákvörðun um aðgerðaleysi — getur haft mikil áhrif til næstu áratuga.

Fjárlaganefnd, þegar hún var undir forustu núverandi hæstv. fjármálaráðherra Oddnýjar G. Harðardóttur, skilaði áliti um skýrslu Ríkisendurskoðunar vegna ríkisreiknings 2009 sem var tímamótaálit og stefnumarkandi fyrir nefndina og hlutverk hennar. Nefndin skilar nú álitum til þingsins um allar skýrslur Ríkisendurskoðunar og er það nýlunda. Fjárlaganefnd og þeir þingmenn sem í henni sitja taka hlutverk sitt alvarlega og er nú á vegum nefndarinnar unnið að verklagsreglum um aukið eftirlit með framkvæmd fjárlaga, um ákvarðanatöku um stærri verkefni eða útgjaldatilefni sem og vinnulag við fjárlagafrumvarpið. Nefndin leitar ráðgjafar hjá Ríkisendurskoðun við þessa vinnu.

Breyttar áherslur fjárlaganefndar munu vonandi verða sýnilegri í störfum þingsins. Til dæmis mun nefndin leggja fram skýrslu fyrir þinglok þar sem Alþingi verður upplýst um afkomuhorfur ríkissjóðs miðað við stöðu á fyrsta ársfjórðungi auk mats á helstu veikleikum við framkvæmdina. Þá hefur nefndin stutt tillögu hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar um breytt skipulag umræðna um fjárlagafrumvarpið og mikilvægt er að þingskapanefnd sem nú er að endurskoða lögin taki tillit til þessa. Þá hyggst fjárlaganefnd flytja frumvarp til að afnema mörkun tekjustofna að mestu til að efla fjárstjórnarvald sitt.

Ný fjárreiðulög eru mikilvæg forsenda fyrir nútímalegri og skilvirkari fjárstjórn. Því spyr ég, frú forseti, hæstv. fjármálaráðherra áðurgreindra spurninga um markmið nýrra laga, fjármálareglur og hvenær þingið megi vænta þess að fá frumvarpið til umfjöllunar.