140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

umgjörð ríkisfjármála.

[13:49]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég fagna þessari umræðu um umgjörð ríkisfjármála, hún skiptir sérstaklega miklu máli þegar skuldir ríkissjóðs nema um það bil heilli landsframleiðslu.

Mig langar að gera að umtalsefni þann hluta ríkisfjármálanna sem snýr að skuldastýringu ríkissjóðs. Fyrir nokkrum árum var umgjörðin um skuldastýringu ríkissjóðs færð úr faglegu umhverfi inn í stofnanaumhverfi sem er ekki í samræmi við það sem best gerist samkvæmt stöðlum OECD. Það var gert af fyrrum fjármálaráðherra, Árna Mathiesen, og að tilstuðlan skrifstofustjóra í fjármálaráðuneytinu. Með því var umgjörð skuldastýringarinnar sett inn í sama umhverfi og í Danmörku, þ.e. í vörslu seðlabanka landsins. Það er fyrirkomulag sem OECD notar sem dæmi um það hvernig hlutirnir eiga ekki að vera þegar kemur að skuldastýringu ríkissjóða.

Frá því að ég tók sæti á þingi hef ég rætt við fyrrverandi fjármálaráðherra, Steingrím J. Sigfússon, fyrrverandi formann fjárlaganefndar og núverandi velferðarráðherra, Guðbjart Hannesson, og fjárlaganefnd í heild um þetta mál. Ég hef rætt við núverandi hæstv. fjármálaráðherra, sem þá var formaður fjárlaganefndar, og ég hef rætt þetta við núverandi formann fjárlaganefndar og bent á hvað þurfi að gera í þessu máli. Það gerist hins vegar ekki neitt og enn er skuldastýring ríkissjóðs Íslands í Seðlabanka Íslands með allri þeirri hættu sem því fylgir.

Ein af fyrstu spurningunum sem ég fæ í samskiptum mínum erlendis um hrunið og stöðu ríkisfjármála er einmitt um umgjörð skuldastýringar ríkissjóðs Íslands. Núverandi fyrirkomulag veldur vonbrigðum og ríkissjóður Íslands nýtur einfaldlega ekki trausts á alþjóðavettvangi, m.a. vegna þessa. Gríðarlega háir vextir á nýteknu láni ríkissjóðs erlendis bera þess meðal annars merki. Það bólar hins vegar ekki einu sinni á því í ræðum formanns fjárlaganefndar eða ræðu hæstv. fjármálaráðherra að það eigi að breyta þessu fyrirkomulagi og ég lýsi eftir breytingum á því. Það er mjög brýnt fyrir íslenska samfélagið í heild sinni að skuldastýring (Forseti hringir.) ríkissjóðs Íslands verði í faglegu umhverfi en ekki stofnanapólitísku.