140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

umgjörð ríkisfjármála.

[13:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hrunið, kreppan um allan heim og sérstaklega vandræðin í Evrópu segja okkur að það er mjög nauðsynlegt að taka upp meiri fjármálaaga og hafa fjármálalæsi sem víðast, líka hjá ríkinu.

Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, sem var frummælandi og ég þakka henni fyrir það, lofaði sem endranær ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem hefði bætt framkvæmd fjárlaga. Ég get ekki verið sammála þessu, ég kalla þetta allt að því öfugmæli. Þetta er ríkisstjórn sem skrifaði undir Icesave óséð, samþykkti meira að segja um það lög og setti aldrei í fjárlög. (VigH: Rétt.) Það er ekki mikill fjármálaagi eða góð framkvæmd. Ríkisstjórn sem lánaði Sögu Capital 19 milljarða án heimilda, og líka VBS, Sparisjóði Keflavíkur og Sjóvá, allt saman án heimilda í fjárlögum, sýnir ekki gott fordæmi í fjármálalegum aga.

Núna liggur fyrir Alþingi eitt dæmi í viðbót, Vaðlaheiðargöng. Við þekkjum Hörpu og við munum kynnast háskólasjúkrahúsinu þar sem menn ætla að fara á svig við og plata skattgreiðendur framtíðarinnar. Staða Grikkja og hrunið ætti að kenna okkur mikilvægi þess að sýna aga í fjármálum, upplýsa um skuldbindingarnar og bæta regluverkið sem sameiginlegt verkefni allra þingmanna. Við ættum öll að standa að þessu. Og svo er kannski mest um vert að fara eftir þeim reglum sem í gildi eru. Það hefur ekkert gildi að hafa lög og reglur, stjórnarskrá o.s.frv. ef ekki er farið að því. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)