140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

umgjörð ríkisfjármála.

[13:56]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er sorglegt að horfa upp á það að þessi umræða hér skuli vera enn ein sjálfshólsumræðan frá Samfylkingunni. Hv. málshefjandi, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, sagði í upphafi ræðu sinnar að þessi ríkisstjórn hefði lyft grettistaki í ríkisfjármálum svo eftir hefði verið tekið. Ég hef hvergi séð það grettistak og ég þekki engan sem hefur tekið eftir neinni framför.

Staðreyndin er nefnilega sú að skuldastýring núverandi ríkisstjórnar er grafalvarleg. Eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal kom hér inn á er meira og minna hægt að tvöfalda fjárlögin vegna þess að mjög háar skuldir eru ekki færðar í ríkisreikning. Hv. þm. Pétur Blöndal taldi upp nokkur verk sem eru ekki þar inni og skal þar við bæta Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins sem er skuldsettur upp á 400 milljarða og er hvergi getið um í ríkisreikningnum.

Virðulegi forseti. Ég óttast það sem fram hefur komið hér í dag um það hvernig þetta nýja frumvarp á að líta út. Það virðist stefnt að því að hafa það fullt af kratavæðingu eins og önnur frumvörp sem frá ríkisstjórninni koma. Ég sé ekki betur en að um fullkomið valdaframsal frá Alþingi sé að ræða vegna þess að nú á að fara að deila út peningum til ákveðinna ábyrgðarsviða. Þá eru það ráðherrarnir sjálfir sem ákveða hvernig á að deila þessu út í stað þess að merkja þessa fjármuni ákveðnum stofnunum. Þetta tel ég mikla afturför og ekki auka það gegnsæi sem hefði þurft að verða í ríkisfjármálunum.

Svo vil ég líka benda þingmönnum Samfylkingarinnar á (Forseti hringir.) að það er lítið mál að reka ríkissjóð með því að taka lán á 6% vöxtum (Forseti hringir.) sem eru töluvert hærri en vextirnir á lánunum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.