140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:13]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir ræðuna. Hann er vel að sér í þeim málaflokki sem hann fór hér yfir og því langar mig til að spyrja hann og leita álits hjá honum á því hvers vegna ríkisstjórnin er búin að kúvenda í málefnum Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands. Það eru ekki margar vikur síðan hæstv. þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, talaði fyrir því að sameina ætti þessar stofnanir. Jú, þingmaðurinn fór aðeins í ræðu sinni yfir að stofnaður hefði verið þriggja manna hópur með tveimur erlendum aðilum og einum íslenskum, Jóni Sigurðssyni, sem var áður stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, m.a. þegar hrunið varð, eins og þingmaðurinn fór yfir, og birtist þá í glanstímariti Landsbankans þar sem beinlínis var auglýst hve tryggir Icesave-reikningarnir væru. Nú er ríkisstjórnin farin að hlusta á ráðgjöf þessa manns sem situr í minni hluta í nefndinni. Hvað er hér um að vera að mati þingmannsins? Hví skyldi ríkisstjórnin ekki styðjast við ráðgjöf þeirra erlendu aðila sem leggja eindregið til að þessar fjármálastofnanir verði sameinaðar, m.a. með það fyrir augum að hafa hér betri yfirsýn yfir fjármálamarkaðinn? Mér þætti vænt um að þingmaðurinn færi yfir það.

Í öðru lagi taldi hann að sú stofnanaumgjörð sem er verið að leggja til í þessari þingsályktunartillögu væri ólík því sem gerist í öðrum löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Hvers vegna ættum við ekki að reyna að hafa ráðuneytaskipan okkar í takti við það sem gerist annars staðar og hefur reynst vel í stað þess að beygja enn einu sinni út í skurð og fara þá leið sem ríkisstjórnin leggur til?