140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:20]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á að hafa ekki svarað seinni spurningunni, það var út af tímaskorti, en ég hygg að þessu sé háttað þannig til dæmis annars staðar á Norðurlöndum að málefni efnahagslífsins, fjármálamarkaða og seðlabanka, séu öll á einni hendi og yfirleitt á hendi annaðhvort fjármálaráðuneytis eða sérstaks efnahagsráðuneytis. Ég get sagt frá því að í Bretlandi var búið að skipta þessum stofnunum þó nokkuð upp. Menn telja í dag að það hafi verið mjög mikil mistök og eru að reyna að sameina þær aftur. Þar er bankaeftirlitið að fara inn í seðlabankann en eftir stendur fjármálaeftirlit sem mun sjá um neytendavernd og samkeppnismál. Það er sú leið sem ég mundi vilja fara.

Af hverju er þessu öllu svona háttað? Ég get ekki verið með neitt nema einhverjar spekúlasjónir í því og ég geri mér á engan hátt grein fyrir hvað vakir fyrir hæstv. ríkisstjórn eða formönnum hæstv. ríkisstjórnar. Það eina sem ég get sagt um það er að eftir þrjú ár — það kom fram í stjórnarsáttmála að það ætti að gera einhverja breytingu á ráðuneytaskipan — er lítill rökstuðningur fyrir þessari hugmynd og þessari framkvæmd, (Forseti hringir.) eins og sést á því að greinargerðin er einungis fimm blaðsíður (Forseti hringir.) almenns eðlis.