140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:29]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru góðar spurningar. Ég hef velt þessu fyrir mér. Nú erum við búin að ræða þetta mál þó nokkuð mikið, þó alls ekki í þaula. Ég hef ekki enn komið auga á röksemdirnar fyrir því að fara út í þessar breytingar en það sem meira er, ekki hafa verið gerðar neinar tilraunir til þess að rökstyðja breytingarnar, ekki nokkrar einustu. Við höfum ekki séð stjórnarliða koma hér upp af einhverri sannfæringu og segja okkur frá því með tilfinningaríkum hætti af hverju farið er í þessa vegferð.

Ég hefði haldið að tímanum og kröftunum sem við eyðum í þetta mál væri mun betur varið, sem og áherslunum sem ríkisstjórnin leggur á að klára málið, í að koma með hugmyndir og frumvörp sem kæmu til dæmis heimilunum í landinu til hjálpar eða að hér kæmu fram mál sem styddu við fjárfestingar atvinnulífsins sem mundi í framhaldinu ráða til sín fólk og létta oki atvinnuleysisins af okkur. Það virðist bara ekki vera neinn einasti áhugi fyrir því. Af óskiljanlegum ástæðum er ofuráhersla lögð á stofnanaumgjörð Stjórnarráðsins. Ég verð bara að segja, hæstv. forseti, að ég skil ekki út af hverju þessi áhersla er lögð á þetta mál hér, í þinglok (Forseti hringir.) meira að segja.