140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:42]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom víða við í ræðu sinni. Hann kom inn á að hann hefði setið í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem varamaður þegar fjallað var um þetta mál og að ekki hefði verið mikill fögnuður hjá gestum sem fengu þar lítinn tíma og engan til að skrifa umsögn. Mig langar að biðja hv. þingmann um að fara aðeins betur yfir það í svari sínu hvernig að þessu var staðið.

Hv. þingmaður nefndi líka og gerði athugasemdir við þau ummæli hæstv. forsætisráðherra að það væri ekkert óeðlilegt við að mál færu hérna í gegn á færibandi, það væri viðtekin venja. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann geti tekið undir þau sjónarmið að þó svo að einhverjir hafi verið með afsakanir fyrir því að málin hafi líka verið afgreidd á óvenjulega stuttum tíma fyrir einhverjum árum síðan réttlæti það ekki það sem verið er að gera í dag.

Það má rifja upp það sem gerðist í síðustu eða þarsíðustu viku þegar upp kom að lög um skeldýrarækt voru túlkuð af sumum eftirlitsstofnunum með þeim hætti að það var ekki að heyra á þeim stjórnarþingmönnum sem samþykktu það mál að markmið laganna hefði verið eins og viðkomandi eftirlitsstofnun túlkaði þau. Er þá ekki sérstök ástæða til að vanda lagasetninguna hvort heldur sem er í þessu máli eða öðrum? Það þarf ekki að fara nema örfáa daga aftur í tímann til að leita að svörum við því hvers vegna það er mikilvægt að lög samþykkt á Alþingi séu túlkuð með sama hætti þar og af viðkomandi stofnun sem á að framfylgja þeim.

Væri ekki æskilegt að breyta vinnubrögðunum og benda ekki alltaf á að hugsanlega hafi einhvern tímann verið gert eitthvað verra?