140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:14]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Eins og oft hefur komið fram í þessari umræðu hefur töluvert verið talað í henni og í sjálfu sér af nógu að taka. Ég átti þess kost að ræða við einn hæstv. ráðherra skömmu áður en ég kom í ræðustól og hann tjáði mér þá skoðun sína að honum veittist erfitt að átta sig á því hvað það væri sem ræðumenn gerðu ágreining um. Til að fríska örlítið upp á það er í grófum dráttum hægt að draga það einfaldlega saman í þá setningu að hér liggur ekki annað fyrir en ósk hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnar um að Alþingi styðji nafnabreytingu á ráðuneytum. Í þeirri nafnabreytingu felst hins vegar, eins og greinargerðin ber með sér, breyting á verkefnaskipan ráðuneytanna sem fyrir eru án þess að í greinargerðinni sé tilgreint nákvæmlega hvert innihald breytinganna er. Þar liggja stærstu athugasemdirnar sem gerðar eru við þessi áform.

Raunar má segja að stærsta einstaka athugasemdin sem komið hefur fram í umræðunni hafi komið frá stjórnarliðum, en hv. þm. Árna Páli Árnasyni gerði þær athugasemdir að með þessari þingsályktunartillögu væri verið að taka algjöra U-beygju frá þeim áformum sem sett voru fram í stjórnarsáttmála Samfylkingar og Vinstri grænna á árinu 2009. Í honum var reynt að setja fram í orðum að forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar væri að byggja upp getu stjórnkerfisins til að sinna hagstjórn með sama hætti og í nágrannalöndunum. Stærsta skylda stjórnvalda stæði til þess að byggja upp trúverðuga umgjörð um hagstjórn og fjármálalegan stöðugleika, auk þess að skapa um það verkefni eins víðtæka sátt og kostur væri.

Með þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir er alveg ljóst, í ljósi þeirra viðbragða og athugasemda sem við hana hafa verið gerðar, hvoru tveggja af stjórnarliðum og stjórnarandstöðu, að þetta meginmarkmið stjórnarsáttmálans er horfið á braut og að auki er engin sátt um þær tillögur sem hér liggja fyrir.

Það skal þó undirstrikað að ekki er allt algalið í þeim áformum sem birtast í þessari tillögu, það er langur vegur frá því. Ýmislegt er hægt er að ræða og í raun vel unnt að styðja, en eins og málið er búið er ekki boðið upp á neitt annað en eina allsherjarafgreiðslu á þeirri stuðningsyfirlýsingu sem hæstv. ríkisstjórn fer fram á, annaðhvort já eða nei. Það er ekkert um það að ræða að koma öðrum verkefnum til framkvæmda.

Ég vil þó gera að umtalsefni eitt sérstakt atriði sem ég tek heils hugar undir að beri að vinna að, sem er greint frá í rökstuðningnum eða greinargerðinni með tillögu til þingsályktunar um breytta skipan sem hæstv. forsætisráðherra lagði fram, og er einnig ítrekað og undirstrikað í nefndaráliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þetta eru þau áform sem lúta að því að koma á fót sjálfstæðu efnahagsráði. Stefnt er að því að það verði skipað óháðum sérfræðingum sem ætlað er að leggja sjálfstætt og hlutlaust mat á áætlanir og hagstjórn. Ég tel mjög af hinu góða að við höfum einhverja slíka sjálfstæða starfsemi utan Stjórnarráðsins sem ekki er háð upplýsingum þaðan eða mati á fjárhagslegum stærðum og við höfum einhverja sjálfstæða stofnun sem getur lagt eigið, óháð mat á stöðu mála sem lúta að efnahagsspám, efnahag, hagspám, hagstjórn og öðru því um líku sem við glímum við um þessar mundir.

Það væri mjög æskilegt að þetta markmið gæti gengið eftir og er í raun í fullu samræmi við þann vilja sem margoft hefur verið ítrekaður hér af þingmönnum allra flokka í tengslum við umræður um langtímaáætlun í fjármálum ríkisins, og ekki síður og oftar en ekki í samhengi við fjárlagaumræðu hvers árs, vegna þess að fjárlaganefndin hefur mjög takmarkaða getu og krafta utan frá til að leggja sjálfstætt, óháð mat á þær áætlanir og upplýsingar sem koma til hennar frá (Forseti hringir.) Stjórnarráðinu í tengslum við fjárlagagerð hvers árs.